Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 22:48:15 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fór mjög nálægt því að eyðileggja ágæta ræðu með orðum sínum núna. Mig langar að upplýsa hv. þingmann um það að hafi það einhvern tíma verið þannig að Framsóknarflokkurinn sem miðjuflokkur, líklega eini miðjuflokkurinn á Íslandi í dag, hafi druslast með Sjálfstæðisflokknum hægra megin er sú tíð liðin. Framsóknarflokkurinn er ekkert viðhengi við Sjálfstæðisflokkinn ef hv. þingmaður hefur verið eitthvað að gefa því undir fótinn, (Gripið fram í.) við erum miðjuflokkur. Við erum heldur ekki nein drusla vinstra megin við miðjuna þannig að það sé alveg á tæru. (Gripið fram í.) Já, hárrétt.

Það er mjög sérkennilegt að tala um þetta út frá því sjónarmiði að hér sé verið að tala um hægri og vinstri, þetta snýst ekki um það. Eins og hv. þingmaður nefndi réttilega snýst þetta um grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar. Þar skiptir atvinnugreinin út frá atvinnusjónarmiði, þ.e. hverjir hafa vinnuna, landsbyggðina meira máli en höfuðborgarsvæðið. Það er algjörlega óásættanlegt, hv. þingmaður og virðulegi forseti, að framtíð þessarar greinar sem skiptir (Forseti hringir.) landsbyggðina einna mestu máli verði tekin á kaffihúsum í Reykjavík.