Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 22:55:00 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:55]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að við getum verið sammála um það, við framsóknarmenn leggjum það líka til, til að einfalda þetta byggðakvótabix sem hefur staðið í mörgum, að úthlutað verði til fiskvinnslna og að þessi beiski kaleikur verði þannig tekinn af sveitarfélögunum. Ég get líka tekið undir að það sé eðlilegt að af öllum auðlindunum sé greitt einhvers konar auðlindagjald, í þessu tilviki veiðigjald. Það kom fram áðan í andsvörum að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa talað mismunandi í þingflokknum og það er ekkert óeðlilegt við það.

Þegar þjóðlendulögin voru samþykkt á sínum tíma var samþykkt að þær tekjur sem yrðu til í þjóðlendunni ættu að renna til viðkomandi þjóðlendu til uppbyggingar og reksturs. Ég hef velt því fyrir mér hvort þetta sé mjög frábrugðið því ef auðlindin yrði nýtt frá ákveðnum landshluta, hvort ekki sé hægt (Forseti hringir.) að hugsa sér að þar með sé skilgreindur ákveðinn landshluti sem hafi tekjur af (Forseti hringir.) þeirri auðlind og að tekjurnar renni þar af leiðandi að einhverju leyti til þess landshluta til (Forseti hringir.) uppbyggingar atvinnulífsins.