Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 23:29:13 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:29]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég átta mig á því að hæstv. forseta er kannski svolítill vandi á höndum að reyna að draga hæstv. fjármálaráðherra til þessarar umræðu nú þegar klukkan er orðin hálftólf. En takist það ekki og mæti hæstv. fjármálaráðherra ekki til þessarar umræðu óska ég eftir því að hæstv. forseti þingsins hlutist til um það gagnvart yfirstjórn Alþingis að gerð verði könnun á því hversu oft það hafi gerst, segjum bara frá árinu 1990, að fram hafi verið lögð á Alþingi stjórnarfrumvörp sem eru útbúin eins og það sem hér er til umræðu, þ.e. að í gögnum málsins komi fram efasemdir frá einum hæstv. ráðherra og ráðuneyti hans um það að frumvarp annars hæstv. ráðherra í sömu ríkisstjórn standist stjórnarskrána. Ég óska eftir því að þessi úttekt verði framkvæmd þannig að við gætum gengið úr skugga um það (Forseti hringir.) hvort hér sé um algjört einsdæmi að ræða sem ég tel vera.