Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 23:45:05 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:45]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er mikið að maður finnur loksins ráðherra innan ríkisstjórnarinnar sem er með bjartsýni í brjósti sér. (Gripið fram í.) Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason hefur farið hamförum hér í umræðunni með jákvæðan boðskap, boðskap friðarins. Ég held að ríkisstjórnin ætti að íhuga það alvarlega að fela þessum hæstv. ráðherra veigameiri embætti innan ríkisstjórnarinnar því að öðrum virðast ekki farnast þessi verk eins vel úr hendi og honum í þessari umræðu.

Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra benti á að það urðu ákveðin tímamót á flokksþingi Framsóknarflokksins þegar ný sjávarútvegsstefna var mótuð. Þar viljum við gera ákveðnar breytingar á sjávarútvegskerfinu án þess þó að umbylta því. Við viljum sníða agnúa af því en það verður að gera með ígrunduðum hætti og taka sér góðan tíma í það. Ég fagna þeim sáttatón sem hæstv. ráðherra hefur lagt hér inn í umræðuna og vona að Samfylkingin (Forseti hringir.) fylgi hæstv. ráðherra í því að yfirveguð vinnubrögð verði viðhöfð í þessu mikilvæga máli.