Skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 10:00:44 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.

694. mál
[10:00]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir að þessi umræða skuli nú geta farið fram. Og ég leyfi mér að segja: Þó fyrr hefði verið. Auðvitað var miður að ekki tókst að hafa umræðu um skýrsluna strax eftir að hún kom fram, ég held að það hefði getað verið gagnlegt að menn hefðu getað skipst á skoðunum um hana strax í byrjun með málefnalegri umræðu á Alþingi, sem þetta vonandi verður.

Það er auðvitað kunnara en frá þurfi að segja að þegar stóru viðskiptabankarnir þrír féllu á Íslandi í október 2008 þá voru það stóratburðir og eins og allir vita er rækilega um það fjallað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar er meðal annars rakið hið ævintýralega þensluskeið þessara banka sem segja má að hafi svo vakið heimsathygli. Það gekk í grófum dráttum þannig fyrir sig að frá og með þeim tíma að Landsbankinn og Búnaðarbankinn voru einkavæddir þróuðust þessir þrír viðskiptabankar úr því að vera um það bil tvöföld landsframleiðsla að stærð í tí- til tólffalda landsframleiðslu. Þessi gríðarlegi vöxtur, og það sérstaklega á hve skömmum tíma hann átti sér stað, er sennilega óþekktur í nokkurri annarri hagsögu.

Vandi stjórnvalda þegar þetta ofvaxna bankakerfi síðan hrundi var augljóslega mikill. Leiðin var mörkuð með neyðarlögunum þann 7. október 2009. Í neyðarlögunum eru Fjármálaeftirlitinu veittar áður algerlega óþekktar heimildir að íslenskum lögum til að yfirtaka fjármálafyrirtæki og ráðstafa eignum þeirra og skuldum eftir því sem nauðsyn krafði. Þar var og gengið frá því að innstæður hefðu forgangsrétt við slitameðferð og má segja að það sé hinn lagalegi grundvöllur aðgerðanna að mörgu leyti. Jafnframt höfðu stjórnvöld á þessum tíma og síðar ítrekað lýst því yfir að þau ábyrgðust allar innstæður. Loks fékk fjármálaráðherra í þessum lögum meðal annars heimild til að stofna ný fjármálafyrirtæki til að taka við innlánum og eignum úr þeim gömlu.

Þegar þessari viðamiklu aðgerð lauk, eða í þeim skilningi að samningar höfðu tekist á síðustu mánuðum ársins 2009, ákvað ég og gerði síðan opinbert að tekin yrði saman skýrsla um þessa aðgerð, enda eðlilegt og sjálfsagt jafnviðamikil og stór og afdrifarík og hún er, og þegar henni yrði lokið yrði gerð grein fyrir málinu opinberlega, Alþingi, almenningi og öllum viðkomandi.

Gerð skýrslunnar lauk í marsmánuði. Hún var kynnt ríkisstjórn 31. mars og samdægurs send Alþingi og lögð fram á vef þess. Ég vona að það sé í anda þeirrar opnu stjórnsýslu og þeirra vinnubragða sem við viljum temja okkur að upplýst sé með skilmerkilegum hætti um stórar aðgerðir og mikilvæga hluti af þessu tagi. Skýrslan er að mínu mati eins raunsönn og greinargóð skýrsla um þessa aðgerð og kostur er. Hún er samin með því hugarfari að vera fyrst og fremst upplýsandi gagn. Hún var ekki hugsuð sem málsvörn til eða frá. Hún er ekki pólitísk í eðli sínu heldur fyrst og fremst unnin af fagmönnum en auðvitað yfirfarin af mér og á mína ábyrgð. Þá var haft samráð við alla helstu málsaðila. Þeim gafst kostur á að koma með athugasemdir og var unnið úr þeim. Reynt var að vanda verkið eins og kostur væri þannig að bæði nýju bankarnir og þeir sem fara með málefni gömlu bankanna, Fjármálaeftirlitið, Seðlabankinn, efnahags- og viðskiptaráðuneytið og aðrir sem aðgerðinni tengdust, ættu kost á því að koma sínum sjónarmiðum að.

Ég mun nú, frú forseti, eftir því sem tíminn leyfir, reyna að bregðast við mörgum þeim helstu atriðum sem uppi hafa verið í umræðum um skýrsluna. Í fyrsta lagi ber að taka það fram að aðferðafræðin var skilgreind í neyðarlögunum. Það er í neyðarlögunum sem Fjármálaeftirlitið fær hinar víðtæku heimildir til að ráðstafa eignum bankanna eftir að þeir eru komnir í þrot. Ríkisstjórn á hverjum tíma, hvorki á haustmánuðum 2008 né síðar, hefur ekki slíkar heimildir. Það er grundvallarmisskilningur og á þeim misskilningi, að mér virðist, grundvallast ýmsar rangtúlkanir sem uppi hafa verið í umræðunni, menn ganga út frá því að heimildir séu hjá ríkisstjórn sem ekki eru það heldur hjá Fjármálaeftirliti. Það á því ekki við rök að styðjast að stefnubreyting hafi orðið af þeirra hálfu eða að hún hefði skipt máli sem slík.

Við ráðstöfun innlendra eigna og skulda til nýrra banka ákvað Fjármálaeftirlitið að fram færi eðli málsins samkvæmt óháð mat á mismun eigna og skulda og að nýr banki gæfi út skuldabréf til gamla bankans sem samsvaraði verðmæti yfirfærðra nettóeigna eða verðmæti eigna umfram skuldir. Ef það væri á hinn veginn gengi uppgjörið að sjálfsögðu í þá átt.

Í bréfi stjórnvalda til stjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 3. nóvember 2008, samanber breytingar á 9. tölulið yfirlýsingarinnar sem gerðar voru 15. nóvember 2008, lýsa íslensk stjórnvöld þeim atriðum sem lögð væru til grundvallar við mat fluttra eigna frá gömlu bönkunum til hinna nýju. Þar kemur fram að það sé lykilatriði í réttlátri meðferð gagnvart innstæðueigendum og kröfuhöfum á hendur yfirteknu bönkunum að nýju bankarnir greiði sannvirði fyrir þær eignir sem fluttar voru frá gömlu bönkunum. Stjórnvöld segjast þar hafa komið upp gagnsæju ferli þar sem tvö teymi sjálfstæðra endurskoðenda sjái um að meta sannvirði eigna. Almennt muni stjórnvöld tryggja að meðferð á innstæðueigendum og lánardrottnum sé sanngjörn, jöfn og án mismununar og í samræmi við lög. Nema hvað? Hér heita íslensk stjórnvöld því að þessi málsmeðferð uppfylli öll þessi skilyrði og eftir því hefur verið reynt að vinna síðan, enda væri annað ekki björgulegt og gæfulegt og stæðist ekki lengi fyrir dómstólum af menn vikju af leið í þeim efnum.

Til að framkvæma hið óháða mat var ráðið ráðgjafar- og endurskoðunarfyrirtækið Deloitte í Lundúnum og jafnframt ráðgjafarfyrirtækið Oliver Wyman til að taka út þá aðferðafræði sem beitt var við það. Þegar FME samdi við matsaðilana í desember 2008 var þegar orðið ljóst að matið yrði ekki einhver ákveðin tala heldur matsbil. Þar með var ljóst að FME mundi ekki geta notað hið óháða mat til að ákveða endanlega fjárhæð skuldabréfsins eða skuldabréfa milli bankanna og að setjast yrði að samningaborði til að komast að niðurstöðu um greiðslu nýs banka til hins gamla fyrir yfirfærðar nettóeignir. Ef samningar næðust ekki yrði þá FME væntanlega að ákveða greiðsluna upp á sitt eindæmi. Breytingar á endurgreiðsluáætluninni snerust eingöngu um þetta atriði og byggir á því, sem þegar var orðið ljóst í desember, að matið yrði ekki einhver ein tala heldur verðbil.

Hlutverk Fjármálaeftirlitsins samkvæmt neyðarlögunum var og er að ráðstafa eignum banka ef til slíks kemur. Samkvæmt neyðarlögunum er það Fjármálaeftirlitið sem er hið óháða stjórnvald sem hafði heimild til að ráðstafa eignum bankanna, ekki stjórnvöld. Með hliðsjón af eignarréttarákvæðum stjórnarskrár var nauðsynlegt að sjá til þess, eðli málsins samkvæmt, að sanngjarnt gjald kæmi fyrir slíka eignayfirfærslu, óháð því hver aðilinn var sem yfirfært var frá, t.d. hvort aðilinn var innlendur eða erlendur. Þetta hljóta allir hv. alþingismenn að sjá.

Hliðstætt dæmi getum við kallað eignarnám þar sem greiða verður fyrir eignir sem yfirteknar eru samkvæmt óháðu mati en ekki samkvæmt einhliða ákvörðun þess sem tekur eignina yfir til sín. Eða dettur einhverjum í hug að það fengi staðist að menn stæðu þannig að verki að þeir tækju einhliða yfir eignir og ákvæðu sjálfir verðið á þeim? Nei, þá verðum við að minnsta kosti að afnema stjórnarskrána fyrst.

Vangaveltur um að sú ríkisstjórn sem sat út janúar 2009 hafi verið með áætlanir um 60–70% afslátt af lánasöfnum sem hafi átt að ganga til einstaklinga og fyrirtækja eru því algerlega úr lausu lofti gripnar. Í öllu falli hafði sú ríkisstjórn engar heimildir til slíkra aðgerða og slíkt hefði aldrei staðist eins og það sem ég hef á undan sagt sýnir fram á. Í bráðabirgðastofnefnahagsreikningum, sem Fjármálaeftirlitið birti 14. nóvember 2008, var talið að verðmæti yfirfærðra eigna viðskiptabankanna væri 2.886 milljarðar kr. Í verðmati Deloitte, sem birt var í apríl 2009, var verðbilið 1.880–2.200 milljarðar kr. Það verðmæti sem samið var um að lokum, á síðari hluta ársins 2009, var 1.760 milljarðar sem svarar um 56% af fyrra eignarmati. Hugmyndir um verðmæti eignanna virðast því hafa verið hærri á síðari hluta ársins 2008 en samið var um að lokum. Ég vek athygli manna á þessari tölu, að niðurstaðan í samningunum síðla árs 2009 er neðan við neðri mörk verðbilsins sem Deloitte gaf út í apríl 2009.

Þessi útfærsla samninganna tryggir óumræðanlega stöðu ríkissjóðs og allra aðila með sanngjörnum hætti. Fyrir nýju bankana og ríkissjóð var mikilvægt að semja um lágt mat á yfirfærðum eignum til að tryggja rekstur bankanna. Til að ná því markmiði var jafnframt samið um að gömlu bankarnir hefðu þann valkost að yfirtaka eignarhlut í bönkunum, eins og það endaði með Arion banka og Íslandsbanka, eða að um skilyrt uppgjörsbréf yrði að ræða ef eignirnar reyndust verðmætari en samið var um, samanber Landsbankann. Þess var gætt að hin skilyrta aukning næði aldrei til lána einstaklinga heldur einungis til fyrirtækja þar sem ágreiningur var mikill um rétt verðmat. Ef menn hefðu bara haft þessa staðreynd í huga hefði umræðan getað orðið öðruvísi undanfarnar vikur, að eignir einstaklinga voru og eru ekki þarna undir gagnvart hinu skilyrta bréfi og uppgjörinu þar.

Það er rétt að taka fram að það hefði aldrei samist um hið lága verðmat án nefndra valkosta um annaðhvort eignarhald eða skilyrt upphafsbréf, að sjálfsögðu ekki. Það var grundvöllur þess að samkomulagið tókst þó og dróst ekki að þessi tæki voru útbúin til að klára málið. Líklegast er að yfir höfuð hefði ekki náðst neitt samkomulag án þessara valkosta. Hvar hefðum við þá verið stödd? Án samkomulags, eins og ég segi, hefði Fjármálaeftirlitið mjög líklega ekki átt annan valkost en að taka miðgildi verðmats hins óháða aðila. Hvað hefði það þýtt? 280 milljörðum kr. hærri fjárhæð fyrir nýju bankana en hið umsamda verðmat. Hinu lága verðmati er meðal annars ætlað að tryggja arðsemi ríkissjóðs af hlutafjárframlögum sínum og örugga tryggingu fyrir endurgreiðslu víkjandi lána með auknu eigin fé og styrk bankanna.

Þessir samningar voru staðfestir af Alþingi í desember 2009. Að athuguðu máli töldum við í fjármálaráðuneytinu þörf á því að lögfesta skýra og afdráttarlausa heimild fyrir fjármálaráðherra, til viðbótar heimildum neyðarlaganna, til að staðfesta breytingar á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og NBI hf. við skilanefndir Glitnis, Kaupþings og Landsbanka Íslands. Þetta var gert. Í þessu frumvarpi var mælt fyrir um staðfestingu á þeim ráðstöfunum sem leiddu af samningum fjármálaráðuneytisins fyrir hönd ríkissjóðs og þessara aðila um endurfjármögnun og uppgjör og snerta eignarhald ríkisins í hinum nýju bönkum. Í umræðum á þingi upplýsti ég mjög nákvæmlega um þessa aðkomu ríkisins að málinu í formi hlutafjárframlaga og víkjandi skuldabréfa. Það er því undarlegt að menn telji þær upplýsingar nýjar af nálinni sem hér lágu fyrir og var mælt sérstaklega fyrir og voru útskýrðar á Alþingi þarna í desembermánuði. Frumvarpið var samþykkt á Alþingi eftir skammar umræður með fjórum mótatkvæðum þannig að ekki var annað ráðið af viðtökum Alþingis á þessum tíma en menn teldu að aðgerðin hefði gengið vel.

Menn hafa rætt mikið um afskriftir lána í tengslum við þessa aðgerð og þá hvort möguleikar hafi verið til að auka sérstaklega svigrúm bankanna til afskrifta lána í gegnum þessa samninga. Þá vísa ég til alls þess sem áður hefur verið sagt um þau skilyrði sem svona aðgerð verður að uppfylla og standast til að hún hrynji ekki um sjálfa sig. Veruleikinn er sá að þeir afskriftasjóðir sem nýju bankarnir fengu til sín munu í meginatriðum ganga til viðskiptavina bankanna. Staðan mun reyndar nú þegar stefna í að verða þannig að viðskiptabankarnir munu veita einstaklingum meiri afslátt af lánum þeirra en samið var um við yfirfærsluna. En aukin verðmæti fyrirtækjalána munu bera það uppi. Dæmi um slík fyrirtækjalán eru lán til útflutningsfyrirtækja sem ganga betur eftir gengisfellingu krónunnar. Slík þróun getur orðið til þess að minnka má viðkomandi afskriftasjóði en hingað til hefur verið um mjög takmarkaðar fjárhæðir að ræða miðað við heildarstærð þeirra.

Því hefur verið haldið fram að þar sem erlendir kröfuhafar séu eigendur tveggja banka muni þeir ganga harðar að viðskiptamönnum sínum og jafnvel setja þá í þrot. Staðreyndin er sú að erlendir kröfuhafar sem slíkir koma ekki nálægt nýju bönkunum því að eignarhald þeirra, óbeint, fer í fyrsta lagi í gegnum hendur skilanefndar og slitastjórna sem aftur eiga að setja stjórnarmenn í sjálfstætt eignarhaldsfélag og þar eru eldveggir á milli og meiri hluti stjórnar þeirra félaga skulu koma úr öðrum áttum en frá hagsmunaaðilum, skilanefndum og kröfuhöfum. Gömlu bankarnir munu væntanlega, eða skilanefndirnar fyrir þeirra hönd, selja hluti sína í bönkunum innan fárra ára og aldrei mun koma til þess að einstakir kröfuhafar leysi til sín þá hluti. Það er langlíklegasta þróunin og að því er unnið. Skiptir þá ekki máli að byggja upp traustan og seljanlegan banka og gera menn það nema með góðum viðskiptamannahópi? Nei, væntanlega ekki. Eina leiðin til að tryggja verðmæti þessara hluta er að bankarnir gangi vel, að þeir hafi trausta viðskiptamenn og að þeir séu seljanleg eining í góðum rekstri. Og að ganga of hart að viðskiptavinum og hrekja þá burtu væri ekki aðferð til að hámarka þessi verðmæti.

Þessi frágangur mála er ósambærilegur því að viðkomandi kröfuhafar hefðu beinan aðgang að þeim sem þeim skuldaði en það er ekki í þessu tilviki. Skuldaaðlögunin er síðan á grundvelli laga sem sett hafa verið á Alþingi og á grundvelli samkomulags milli banka, lífeyrissjóða og stjórnvalda og lúta þeim reglum sem þessir bankar eins og aðrir eru bundnir af.

Varðandi matsforsendur, og hvernig verðmæti breytast með tímanum, er rétt að menn hafi í huga að þar geta komið fram verðmætabreytingar á marga fleiri vegu en þann einan að lánasöfnin hafi reynst vanmetin. Sem dæmi má nefna, og það er mikilvægt að menn hafi það í huga, að bankarnir gera að sjálfsögðu upp á grundvelli alþjóðlegra reikningsskilareglna og hið óháða mat var sömuleiðis gert á grundvelli núvirðisaðferða, íslensku bankarnir eru gerðir upp á sama hátt. Það felur meðal annars í sér að lán eru verðmetin á grundvelli framtíðarsjóðsflæðis lánsins og ekki höfuðstóls þess eins og það stendur á uppgjörsdegi. Það þýðir að þessar framtíðargreiðslur eru síðan færðar til uppgjörsdags með vöxtum sem taka mið af markaði; greiðslur eru með öðrum orðum núvirtar. Þegar vextir lækka, eins og gerst hefur á Íslandi síðan haustið 2008, hækkar því að öðru óbreyttu verðmæti lánsins í bókum bankans. Hið sama á raunar við um aðrar eignir með framtíðartekjur, eins og t.d. fasteignir og hlutabréf. Almennt séð skapar vaxtalækkun því betri rekstrarskilyrði fyrir banka, bæði með verðmætaaukningu eigna en ekki síður með lækkun innlánsvaxta. Þannig verða breytingarnar í umhverfinu sem áhrif hafa á verðmæti lánasafnanna og mönnum hefur að miklu leyti yfirsést þetta í umræðum að undanförnu.

Það var samdóma álit þeirra sem mest komu við sögu í þessum aðgerðum, þ.e. Fjármálaeftirlitsins, Seðlabankans, fjármálaráðuneytis, efnahags- og viðskiptaráðuneytis og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að það væri ákjósanlegt, og það drægi úr áhættu bæði fyrir ríkið og fjármálakerfið, að aðrir en ríkið ættu einhvern hluta bankakerfisins. Þetta var meðal annars stutt af Samtökum atvinnulífsins og, ef ég man rétt, af mörgum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem fögnuðu því sérstaklega að niðurstaðan varð á þessa vegu. Enda þótti mér það merkilegt í gær — ef ráða mátti af framgöngu sumra þingmanna Sjálfstæðisflokksins, að ekki sé talað um aðila úti í bæ — að það væri orðin stefna Sjálfstæðisflokksins að ríkið hefði átt að eiga bankakerfið allt. Er það orðið svo? Er það þá orðið þannig að menn hafi algerlega skipt um skoðun frá því sem var þegar þessi niðurstaða náðist? Á þeim tíma voru allir sammála um að þetta væri góður kostur og dreifði áhættunni (Gripið fram í.) af þeirri ástæðu að þetta þýddi að ríkissjóður þurfti ekki að skuldsetja sig sjálfur til hins ýtrasta. Höfðu menn meðal annars í huga að þá hefði hann fremur bolmagn til þess, ef á þyrfti að halda, að mæta frekari áföllum sem kynnu að verða í fjármálakerfinu. Það var að sjálfsögðu enginn þrýstingur á Fjármálaeftirlitið eða aðra aðila í þessum efnum. Menn voru einfaldlega sammála um að þetta væri heppilegasta lausnin.

Gömlu bankarnir eru að sjálfsögðu þrotabú og þar með varð að finna brúklega lausn á fyrirkomulagi þessa eignarhalds. Það útfærði Fjármálaeftirlitið og samþykkti að lokum. Í heildina urðu hlutafjárframlög til gömlu bankanna 135 milljarðar kr., þ.e. hlutafjárframlög gömlu bankanna til hinna nýju og skuldsetning ríkisins beint lægri sem því nemur af þeim sökum. Alls nemur eiginfjárframlag ríkisins til bankanna 135 milljörðum kr. Upphaflega var gert ráð fyrir að það gæti farið í 385 milljarða og það er því 250 milljörðum kr. lægri fjárhæð í beinu eigin fé. Auk þess veitti ríkið tveimur bönkum víkjandi lán, þ.e. Arion banka 32 milljarða og Íslandsbanka 25 milljarða, til að þeir gætu uppfyllt skilyrði Fjármálaeftirlitsins um 16% eiginfjárhlutfall; það var auðvitað mikilvægt að það náðist sömuleiðis fram í þessari aðgerð að bankarnir lögðu af stað mjög sterkt fjármagnaðir og hafa reyndar enn styrkt stöðu sína síðan lagt var upp. Þessi víkjandi lán skila ríkinu vaxtatekjum. Þau eru ekki baggi á ríkinu, þau skila vaxtatekjum og hljóta að teljast mjög vel tryggð í ljósi sterkrar eiginfjárstöðu bankanna. Samtals nemur því fjárbinding ríkissjóð vegna endurreisnar viðskiptabankanna þriggja 190 milljörðum. Það er staðreyndin. Menn hafa síðan blandað ýmsu öðru inn í þessa tölu sem hefur ekkert með samninga gömlu og nýju bankanna að gera, þ.e. hlutum sem urðu vegna áfalla annars staðar í fjármálakerfinu og hafa í för með sér skuldbindingar fyrir ríkið eða ábyrgðir vegna þess að menn gáfu út allsherjarábyrgð á innstæðum í landinu. (Gripið fram í.) Hverjir gerðu það? Fyrst gerði það ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. (Gripið fram í.) Hún hefur síðan verið ítrekuð, já, að sjálfsögðu enda væri ekki gæfulegt að snúa við í miðri á í þeim efnum með tóman innstæðutryggingarsjóð o.s.frv.

Fyrir fall bankanna haustið 2008 hafði Seðlabankinn veitt þeim gríðarlega lausafjárfyrirgreiðslu sem allir vita hvernig endaði. Þar af leiðandi átti Seðlabankinn gríðarlegar kröfur á þrotabúin og mikið af þeim kröfum hefur þegar verið afskrifað. Hluti af fyrirgreiðslunni var gegn veði í útlánum Glitnis og Kaupþings, aðallega húsnæðislánum. Í stað þess að taka lánin til sín og innheimta þau náðist samkomulag um að þau væru færð frá Seðlabankanum og inn í hina nýju banka, en á móti gæfu bankarnir út skuldabréf til Seðlabankans um veð í yfirfærðu lánunum. Skuld Arion banka er í mörgum myntum og færir Seðlabankanum gjaldeyristekjur. Umsamið verðmæti lánanna var samtals 116,9 milljarðar kr. Um var að ræða skynsamlega lausn á vandamáli sem skapaðist við fall gömlu bankanna og er algerlega óháð eignarhaldi á nýju bönkunum.

Í samræmi við hlutverk sitt veitir Seðlabanki Íslands bönkum lausafjárfyrirgreiðslu. Til að koma í veg fyrir að hlutir endurtaki sig, eins og þeir sem gerðust 2008, samþykkir Seðlabankinn nú eingöngu ríkistryggð skuldabréf sem tryggingu fyrir slíkri lausafjárniðurgreiðslu, og hefði betur verið gert fyrr. Samhliða gerir Fjármálaeftirlitið kröfur um 20% lausafjárhlutfall, það er að laust fé í bönkunum nemi að lágmarki 20% af innlánum. Við yfirfærslu á lánum SPRON til Arion banka og Straums, og til að tryggja innstæður eigenda, og þeim aðgang að þeim, hafa bankarnir, til að verja sig fyrir mögulegu útstreymi, fengið lausafjárfyrirgreiðslu á móti. Þetta fyrirkomulag tengist falli SPRON og Straums og er óháð endurreisn viðskiptabankanna þriggja svo að reynt sé að fara yfir nokkur af þeim atriðum sem grautað hefur verið saman við þessa umræðu. Ég mæli með því. Þessi skýrsla er í grunninn um endurreisn viðskiptabankanna þriggja, það gríðarlega stóra, flókna og viðamikla ferli.

Það eru margir aðrir atburðir til hliðar úti í fjármálakerfinu sem full ástæða er til að fara yfir og kannski þarf þrjár skýrslur um þetta að lokum, skýrslu nr. 2, um endurreisn sparisjóðanna þegar hún verður öll um garð gengin, og skýrslu nr. 3, um það sem þá stendur út af í fjármálakerfinu. Það stendur ekki á mér að upplýsa Alþingi um það eftir því sem það heyrir til mín og/eða væntanlega efnahags- og viðskiptaráðherra, eftir því sem það væri á hans könnu, sérstaklega ekki í ljósi þess hversu góðar viðtökur þessi skýrsla hefur fengið og hversu þakklátt Alþingi hefur verið mér fyrir að láta taka hana saman og hversu menn hafa vandað sig við að vitna rétt og nákvæmlega í hana.

Það má beita mörgum aðferðum til að reyna að meta útkomuna fyrir ríkið í þessari aðgerð og aðkomu þrotabúa gömlu bankanna að fjármögnun þeirra nýju. Eins og ég sagði gerði upphaflega áætlun ráð fyrir hlutafjárframlögum til bankanna sem hljóðuðu upp á 385 milljarða kr. Heildarfjárhæðirnar sem fóru í endurreisn bankanna eru ekkert langt frá þeirri tölu þegar allt er talið sem ríkið og skilanefndirnar leggja af mörkum, það er rétt. Sumir hafa misskilið það sem stendur í skýrslunni um það á þann veg að þar með þýði þetta að aðgerðin hafi ekki komið betur út fyrir ríkið en þar er verið að vísa til heildarfjármunanna og trygginganna sem lagðar eru af mörkum og af þeim kemur stór hluti frá öðrum en ríkinu. Ef við tökum þetta, bein eiginfjárframlög upp á 135 milljarða kr. auk 55 milljarða kr. víkjandi lána, þá munar eftir atvikum hvort menn vilja taka 250 milljörðum eða 195 milljörðum yfir það sem ríkissjóður hafi þurft að leggja minna af mörkum miðað við að hann hefði staðið einn að fjármögnun bankanna. Þetta eru staðreyndir og það munar um minna en vextina af þessu. Niðurstaðan er mjög hagstæð fyrir ríkissjóð hvernig sem reiknað er og hefur þegar, frú forseti, leitt til minni vaxtagreiðslna svo að munar tugum milljarða kr. Það er veruleiki. Það þýðir ekki að afneita slíkum staðreyndum. Þær blasa við og liggja á borðinu. Það hefur munað um það í glímunni við hallarekstur ríkissjóðs að þurfa ekki að bókfæra tugmilljarða vaxtakostnað sem annars væri þegar áfallinn vegna áranna 2009 og 2010.

Að lokum verð ég að segja, frú forseti, að mér finnst það mikill ábyrgðarhlutur, sem því miður hefur hent suma í þessari umræðu undanfarnar vikur, að halda því að almenningi að í gegnum þessa aðgerð og uppgjör milli gömlu og nýju bankanna — sem var sett í þann farveg sem ég fór rækilega yfir í byrjun, og sem alltaf hlaut að þurfa að lúta þeim lögmálum sem við eiga, alltaf hlaut að þurfa að standast þær kröfur að vera í samræmi við stjórnarskrá og lög og gæta jafnræðis og með eðlilegum hætti finna uppgjör þarna á milli — hafi stjórnvöld, ríkisstjórn eða ríkisstjórnir, getað fært til fjármuni sérstaklega, sértækt, til að leggja í sjóð til afskrifta á lánum. Það vald var í fyrsta lagi aldrei í höndum ríkisstjórna, það var ekki þar, það var hjá Fjármálaeftirlitinu og í öðru lagi hefði slík aðgerð aldrei haldið vatni fyrir dómi.

Ég bið menn að hugleiða að lokum hversu mikið var undir að þessi aðgerð gæti gengið í gegn og klárast, að hættum á langvinnum töfum og málaferlum væri bægt frá, að nýju bankarnir kæmust af stað fullfjármagnaðir og gætu farið að sinna hlutverki sínu; allt þetta skipti sköpum við að komast áfram við endurreisn hagkerfisins. Þetta ræddum við á árinu 2009 og þá vorum við gagnrýnd fyrir tafir, að þetta gengi of hægt, var það ekki? En nú finnst mér menn vera að segja að við hefðum þess vegna getað látið þetta vera á hliðinni og liggja flatt í málaferlum árum saman og það hefði ekkert gert til. Hvers konar málflutningur er þetta? Þetta var gríðarlega stór, flókin, viðamikil og dýr aðgerð. Ég hef aldrei á ævinni séð aðra eins reikninga og lögfræðikostnaðinn í þessum aðgerðum sem þetta kerfi að vísu, eðlilega og sem betur fer, varð að bera sjálft.

Þarna var verið að takast á um hvað? Hvað var verið að gera uppi á litla Íslandi 2009? Það var verið að byrja að vinna úr fjórða og mér er sagt níunda og tíunda stærsta gjaldþroti veraldarsögunnar. Kaupþing er talið vera fjórða stærsta gjaldþrot í heimi. Að uppistöðu til voru lögfræðingarnir sem að þessu unnu að koma að stærsta máli á sínum ferli báðum megin borðsins. Að lokum tókst þessi aðgerð vel. Hún var leidd heil í höfn með farsælum hætti fyrir íslenska ríkið og fyrir íslenskt hagkerfi. Hún stenst skoðun og ég er ófeiminn við það að hún sé rýnd, hvort sem það er í gegnum þessa skýrslu eða aðgerðina sem slíka að öðru leyti. Ég tel að það hafi meira og minna verið unnið þrekvirki við að koma þessu óhemjuflókna og erfiða verkefni þó í höfn á ekki lengri tíma en rétt um einu ári.