Skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 11:17:32 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.

694. mál
[11:17]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Þegar ég ákvað stuttu fyrir kosningar 2009 að bjóða mig fram fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs trúði ég að forustu VG væri best treystandi til að reisa við efnahagslífið með hagsmuni almennings að leiðarljósi. Aldrei grunaði mig að formaður VG mundi ásamt forustu Samfylkingarinnar verða uppvís að því að gæta hagsmuna erlendra kröfuhafa, eins og Breta, Hollendinga og vogunarsjóða, í Icesave-málinu og nú við endurreisn bankakerfisins. Í febrúar 2009 tók forustufólk stjórnarflokkanna ákvörðun um að ganga til samninga við kröfuhafa í stað þess að bíða eftir óháðu mati á verðmæti lánasafna gömlu bankanna, ákvörðun sem er óskiljanleg í ljósi þess að í dómsmálum hefði verið tekið meira mark á eignamati Deloitte og Olivers Wymans en kröfum vogunarsjóða um hærra mat. (Utanrrh.: Hvar varst þú þá?)

Hæstv. utanríkisráðherra spyr hvar ég hafi verið. Ég var kennari við Háskóla Íslands (Gripið fram í.) á þessum tíma.

Frú forseti. Ég óska eftir að hæstv. fjármálaráðherra upplýsi okkur um raunverulega ástæðu þessarar ákvörðunar. Var ákvörðunin tekin til að hámarka endurheimtu kröfuhafanna, Breta og Hollendinga, þannig að hægt yrði að semja við þá um Icesave og liðka þannig fyrir ESB-umsókn?

Fram kemur í skýrslunni að markmið ríkisstjórnar vinstri flokkanna í viðræðum við kröfuhafa hafi verið að tryggja réttláta meðferð kröfuhafanna. Hvergi er minnst á nauðsyn þess að tryggja hagsmuni skuldsettra heimila og fyrirtækja. Fyrir hrun lánuðu gömlu bankarnir ólögleg erlend lán og tóku síðan stöðu gegn krónunni sem hrundi í verði og át upp eignir venjulegs fólks. Gömlu bankarnir bökuðu sér þannig skaðabótaskyldu. Kröfuhafar hefðu því tæpast unnið dómsmál gegn ríkinu ef hagsmunir skuldara hefðu verið hafðir að leiðarljósi við endurreisn bankakerfisins.

Frú forseti. Ég krefst þess að hæstv. fjármálaráðherra útskýri fyrir öllum þeim sem sitja uppi með stökkbreyttar skuldir hvers vegna ríkisstjórn vinstri flokkanna var ekki tilbúin að berjast fyrir hagsmunum þeirra í samningum við kröfuhafa.

Í skýrslunni kemur fram að lánasöfn gömlu bankanna hafi farið á miklum afslætti yfir í nýju bankana. Afsláttinn átti að nota til að bæta hluta af eignabrunanum og ólöglegar lánveitingar. Þess í stað var samið við erlenda kröfuhafa, hrægamma sem höfðu keypt lánasöfnin á hrakvirði, og samið við þá um að þeir nytu góðs af hörðum innheimtuaðgerðum bankanna. Ríkisstjórnin fylgdi síðan þessu samkomulagi við kröfuhafa eftir með skuldaúrræðum sem annaðhvort lengdu í hengingarólinni eða flýttu gjaldþroti. Afslátturinn myndar núna myndarlegan hagnað í bönkunum.

Frú forseti. Ríkisstjórn vinstri flokkanna reisti skjaldborg um kröfuhafana og skildi skuldsett heimili og fyrirtæki eftir vopnlaus úti á vígvelli þar sem sífellt fleiri falla í valinn. Það er ákvörðun sem aukið hefur ójöfnuð milli þeirra sem eiga og hinna sem skulda, þvert á loforð um að láta breiðu bökin bera þyngstu byrðarnar.

Þegar endurreisn bankanna var kynnt haustið 2009 fullyrti hæstv. fjármálaráðherra að einkavæðing bankanna hefði sparað ríkinu stórar fjárhæðir. Nú hefur komið í ljós að heildarkostnaður var ekki 185 milljarðar eins og kynnt var heldur um 400 milljarðar.

Frú forseti. Kostnaður ríkissjóðs af bankakerfinu er enn meiri ef við tökum tillit til þess að Seðlabanki Íslands hefur greitt háa vexti síðustu tvö árin til nýju bankanna sem kusu frekar að geyma innstæður hjá Seðlabankanum en að lána þær út. Auk þess hefur stjórnarformaður Bankasýslunnar viðurkennt að bankakerfið sé of stórt. Rekstrarkostnaður bankanna er því hár og lítið svigrúm til vaxtalækkana. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Skjaldborg um bankana skapar ekki velferð og hagvöxt. Það gerir hins vegar skjaldborg um heimilin og fyrirtækin. Endurreisn bankakerfis á forsendum vogunarsjóða en ekki hagsmuna almennings er vinstri stjórn til ævarandi skammar. (BirgJ: Heyr, heyr.) (Gripið fram í.)