Skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 11:23:04 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.

694. mál
[11:23]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég hef hlýtt á þessar umræður hér í morgun og reynt að átta mig á því í fyrsta lagi um hvað forustumenn stjórnarandstöðunnar eru að tala og þá út frá hvaða grunni. Hv. þingmaður og formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, hóf ræðu sína í morgun á því að umræðan væri of tæknileg, sérstaklega af hálfu fjármálaráðherra sem var að útskýra þá skýrslu sem hér hefur legið fyrir vikum og mánuðum saman en virðist nú hafa komið stjórnarandstöðunni á óvart. Hv. þingmaður taldi sömuleiðis að það væri í sjálfu sér rangt að aðskilja stjórnmálin frá eftirlitsstofnununum, frá þeim stofnunum sem þyrfti að hafa eftirlit með, t.d. fjármálafyrirtækjum. Það er kannski sá stjórnarstíll sem hv. þingmaður hefur vanist og alist upp við, að gera stjórnmálin og eftirlitsstofnanirnar að einu og hinu sama enda fór það eins og það fór.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði á sömu leið að hætta væri á því að hagsmunir bankanna færu ekki saman með hagsmunum þjóðarinnar. Það er hárrétt. Þetta er ekkert mjög tæknilegt mál. En eigum við þá að ræða almennt um það hvernig hagsmunir bankanna og almennings fóru saman þar til þeir hrundu í hausinn á almenningi? Eigum við að ræða um það? Það er ekkert mjög tæknilegt mál, það er almenns eðlis.

Seðlabanki Íslands skilaði í gær skýrslu um fjármálastöðugleikann á Íslandi og þar fer hann enn og aftur og ítrekað yfir það hvernig hagsmunir bankanna, hvernig hagsmunir Sjálfstæðisflokksins, hvernig stefna Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum fór saman með íslensku þjóðinni. Sú stefna fór ekki saman. Hagsmunir þessara aðila fóru ekki saman, virðulegi forseti. Það er alveg sama hvað hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins kalla hér oft fram í og hvað þá svíður undan þessari staðreynd sem sagan sýnir þeim, (Gripið fram í.) sagan sem þeir skrifa ekki sjálfir, sem betur fer. (Gripið fram í.) Það þarf að fá niðurstöðu sem þjónar almannahagsmunum best, segir hv. þm. Bjarni Benediktsson. Það er algjörlega hárrétt. Það er sú niðurstaða sem skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn bankanna sýnir.

Því hefur verið haldið fram að ríkisstjórn Geirs Hilmars Haardes hafi verið með stórkostlega áætlun í gangi, svakalegt plan til að bjarga íslenskum heimilum með endurreisn bankanna. Sama ríkisstjórn kallaði til landsins Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sér til hjálpar haustið 2008. Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í byrjun árs 2009 er fjallað um áætlanir Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórnar Geirs Hilmars Haardes um hvernig ætti að þjóna almannahagsmunum og endurreisa bankana, hvert stóra planið var sem breytt var frá þegar ný ríkisstjórn tók við. Hvert var þetta stóra plan að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins? Framarlega í þeirri skýrslu er farið yfir það og þar segir að það hafi verið áætlun íslensku ríkisstjórnarinnar undir forustu Sjálfstæðisflokksins að veita hátt í 400 milljarða kr. frá íslenskum skattgreiðendum inn í bankakerfið. Ríflega 20% af vergri landsframleiðslu áttu að fara úr ríkissjóði inn í bankakerfið. Það er stóra planið (Gripið fram í.) sem þar var rætt um, virðulegi forseti.

Síðan kemur hingað hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, og segir — með réttu: Vandi Íslands er skuldavandi. En var hér allt í góðu lagi þar til núverandi ríkisstjórn tók við? Eru öll afglöpin núverandi ríkisstjórn Íslands að kenna? Var hér allt í fínasta lagi, innviðirnir í góðu lagi, allt í góðu lagi nema smáskuldavandi þar til þessi vonda ríkisstjórn tók við sem mylur allt niður, allan þann árangur sem þá fyrri ríkisstjórn hlýtur að hafa skilið eftir sig þegar hún hrökklaðist frá völdum undan barningi úti á Austurvelli, undan pönnuslætti og pottabarningi, virðulegi forseti?