Skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 11:52:20 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.

694. mál
[11:52]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum skýrslu fjármálaráðherra í mjög svo skertum tíma miðað við það sem skýrslur almennt eru ræddar þar sem talsmenn þingflokka hefðu haft 20 mínútur og þingmenn sjálfir 15 mínútur. Þetta er dæmi um þann feluleik sem meiri hluti þingsins er í með þessa skýrslu.

Þessi skýrsla fjármálaráðherra er einfaldlega hrikalegur vitnisburður um aðgerðir manns sem virðist ekki hafa haft hugmynd um hvað hann var að gera eða þá að hann hefur verið algerlega skeytingarlaus um almannahag. Þegar skýrslan er lesin skýrist raunar vel hvers vegna hæstv. fjármálaráðherra reyndi að láta sem minnst fyrir henni fara og hvers vegna stjórnarmeirihlutinn er sama sinnis og vill ekki að hún sé rædd í þaula. Skýrslan sýnir svart á hvítu hvernig fjármálaráðherra og ríkisstjórn Íslands gaf skilanefndum gömlu bankanna skotleyfi á íslenska skuldara, fórnaði hagsmunum íslenskra heimila og fyrirtækja til að vernda hagsmuni erlendra kröfuhafa og gömlu bankanna. Svo koma þeir hér upp stjórnarliðar hver á fætur öðrum og þylja upp tölur eins og ekkert sé sjálfsagðara.

Frú forseti. Þegar nýju bankarnir voru reistir á rústum hinna gömlu voru öll innlend innlán færð yfir í nýju bankana og mynduðu þau uppistöðuna af skuldum hinna nýju banka. Yfirlýsing var líka gefin um ábyrgð ríkissjóðs á öllum innlendum innlánum. Til mótvægis voru lánasöfn gömlu bankanna, þ.e. lán til einstaklinga og fyrirtækja í rekstri stórra sem smárra, færð yfir í þá nýju með miklum afskriftum. Afskriftir áttu að ganga til viðskiptavina.

Í skýrslunni kemur fram að unnar voru nákvæmar greiningar og afskriftaþörf hjá hverju einstöku fyrirtæki þar sem lánafyrirgreiðsla var 2,5 milljarðar eða meira en smærri lán til fyrirtækja og lán til einstaklinga voru metin í einsleitum söfnum. Þessi matsvinna hefði því átt að geta leitt til greiðrar og skjótrar úrvinnslu á málum skuldara hinna nýju banka ef við hana hefði verið stuðst við endurreisn hagkerfisins en svo var hins vegar ekki.

Skýrslan sýnir svart á hvítu að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ákvað að breyta um stefnu í þessum efnum í febrúar 2009 og víkja frá markmiðum neyðarlaganna frá 2008. Í stað þess að ganga frá skuldabréfi vegna yfirfærðra eigna á matsverði var ákveðið að ganga til samninga við kröfuhafa gömlu bankanna um verðmæti þeirra eignasafna sem flutt voru yfir í nýju bankana, en um þetta má lesa í kafla 2.4.2 á bls. 22 í skýrslunni. Það vekur sérstaka athygli að þessi stefnubreyting, sem sögð er til komin til að reyna að friðþægja órólega erlenda kröfuhafa bankanna, var ákveðin tveimur mánuðum áður en Deloitte og Oliver Wyman skiluðu skýrslu um matið á niðurfærslunum en hún var lögð fram 22. apríl 2009. Í skýrslunni segir m.a. orðrétt, með leyfi forseta:

„Eftir því sem tíminn leið frá falli bankanna fór óánægja kröfuhafa gömlu bankanna, ekki síst þeirra erlendu, vaxandi. Sjónarmið þeirra var að lagt væri upp með áætlun sem væri einhliða, ekki væri gætt sjónarmiða þeirra og því yrðu þeir óhjákvæmilega að leita réttar síns hjá þar til bærum yfirvöldum.“ — Og svo segir, frú forseti: „Þrátt fyrir að þetta sjónarmið væri ekki réttmætt var orðið ljóst í ársbyrjun 2009 að gera yrði breytingar á upprunalegum áætlunum um endurreisn bankanna.“

Með þetta í huga ákvað ríkisstjórnin að koma á formlegum samningaviðræðum og fyrir hönd ríkisins fékk fjármálaráðuneytið það verkefni að leiða og samræma þessar viðræður, en það ráðuneyti fer með eignarhald ríkisins í nýju bönkunum. Þetta skref sem hæstv. ríkisstjórn tók er eitthvert mesta afglapaskref í sögu efnahagsmála á Íslandi.

Rammasamningar náðust svo síðari hluta árs 2009, í október og nóvember 2009, við þessa banka. Það er athyglisvert að á nákvæmlega sama tíma eða hinn 30. október 2009 samþykkti Alþingi lög nr. 107/2009, um endurreisn fjárhags heimila og fyrirtækja. Nákvæmlega samtímis því var samninganefnd hæstv. fjármálaráðherra að véla nýja samninga við skilanefndir bankanna til að hafa þá lagasetningu að engu. Það er því greinilegt að ríkisstjórnin ætlaði sér aldrei að standa við lögin um endurreisn fjárhags heimila og fyrirtækja.

Hvað var svo eiginlega samið um? Í stuttu máli var verið að opna leiðir fyrir skilanefndir gömlu bankanna til að láta endurmeta til hækkunar útlánasöfn nýju bankanna þrátt fyrir niðurfærsluskýrslur Deloitte og Olivers Wymans og opna leiðir til að fénýta betur yfirfærð lánasöfn. Á venjulegri íslensku heitir þetta, frú forseti, að skilanefndum og kröfuhöfum var gefið leyfi til að mergsjúga íslensk heimili og fyrirtæki. Hvernig fóru svo bankarnir að? Ólafur Arnarson svarar því ágæta í einni af fjölmörgum greinum sínum um málið en þar segir hann m.a., með leyfi forseta:

„Fyrirtæki eru felld eða þvinguð til að afhenda eignir í skuldauppgjörum. Afskriftir eyrnamerktar lánasöfnum þeirra samkvæmt Deloitte/Wyman eru leystar upp. Eignir teknar á hrakvirði á bækur bankans og síðan seldar inn í dótturfélög hans á matsvirði. Þannig stofnast söluhagnaður á bókum bankans. Þessi hagnaður styrkir eigið fé hans. Eftir sitja með sárt ennið eigendur fyrirtækja, sem bankinn hefur í raun og veru rænt með sérstöku samkomulagi við Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra. Fjársvik, myndu einhverjir kalla svona atferli.“

Hér gerir sem sagt ríkissjóður Íslands samkomulag við erlenda kröfuhafa fyrrum stærsta banka Íslands um rétt þeirra til að fénýta eignir viðskiptavina bankans eins og þeir mögulega geta í stað þess að ganga til endurskipulagningar og afskrifta eins og upphaflega hafði verið gert ráð fyrir.

Frú forseti. Spurningin sem hefur enn ekki verið svarað er sú: Af hverju í ósköpunum var þetta gert svona? Hvers vegna gerir íslenskur fjármálaráðherra svona samning um að fórna íslenskum heimilum og fyrirtækjum í þágu erlendra kröfuhafa? Málið er að vísu ekki flókið og liggur ljóst fyrir, sama hvað hæstv. fjármálaráðherra segir þegar hann gefur þær skýringar einar um málefni skuldara og þjónkun við erlenda kröfuhafa að ef ekki hefði verið orðið við kröfum þeirra um að blóðmjólka íslensk heimili og fyrirtæki hefðu orðið margra ára málaferli og hefur hann sagt að ef ekki hefði verið gefið eftir hefðu menn þurft að kljást við kröfuhafana og herskara þeirra af lögfræðingum.

Frú forseti. Það er deginum ljósara að það hefði enginn dómstóll tekið til greina kröfur vogunarsjóðanna um að meira félli í þeirra hlut en mat Deloitte kvað á um, ekki síst vegna þess hve vandað það var. Þá er spurningin: Hvers konar afstaða er þetta eiginlega hjá fjármálaráðherra þjóðar sem er að fara í gegnum algert efnahagshrun? Er maðurinn einfaldlega ekki að gera það sem honum hefur verið falið að gera, þ.e. að sýna ábyrgð og festu í því að gæta hagsmuna þjóðarinnar? Heldur betur ekki.

Frú forseti. Nú höfum við fyrir framan okkur skýrslu frá fjármálaráðherra sjálfum sem sýnir svart á hvítu að hann gaf erlendum vogunarsjóðum skotleyfi á íslenskt atvinnulíf og heimili. Það var ekki af neinu gáleysi heldur mjög vísvitandi er ráðherrann hvarf sérstaklega frá stefnu fyrri ríkisstjórnar sem tryggt hefði leiðréttingu skulda fyrirtækja og heimila og þar með stuðlað að öflugri endurreisn íslensks atvinnu- og fjármálalífs. Það liggur því fyrir hvað hæstv. fjármálaráðherra gerði og gerði rangt og hvaða afleiðingar það hafði og hvað hann hefði átt að gera til að forða tjóni. (Forseti hringir.) Þetta eru einhver mestu afglöp sem nokkurn tíma hafa verið gerð í embættisfærslu á Íslandi.