Skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 12:23:12 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.

694. mál
[12:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum skýrslu fjármálaráðherra. Það vakti athygli mína að hann tók það sérstaklega fram, sem ætti að vera augljóst, að hann bæri ábyrgð á þessari skýrslu og hefði yfirfarið hana en ekki skrifað hana sjálfur, ég veit ekki hvort nokkur bjóst svo sem við því.

Hvað stendur í þessari skýrslu? Í fyrsta lagi er skýrt tekið fram að neyðarlögin hafi reynst vel og hafi verið eina leiðin sem var fær við þær aðstæður sem voru uppi. Það er áhugavert að hæstv. fjármálaráðherra samþykkti ekki neyðarlögin. Kannski var það vegna þess að neyðarlögin fóru mjög gegn hagsmunum svokallaðra kröfueigenda. Kröfuhafar höfðu á sínum tíma stór orð uppi þegar neyðarlögin voru samþykkt og vönduðu íslenskum stjórnvöldum ekki kveðjurnar. En hins vegar er athyglisvert að hugsa til þess að núna er ríkissjóður að leggja 200 millj. kr. í að koma þeim aðila í fangelsi sem ber mestu ábyrgðina á neyðarlögunum og hæstv. fjármálaráðherra er ábyrgur fyrir því.

Það kemur einnig fram, virðulegi forseti, að breytt var um kúrs. Orðrétt segir, með leyfi forseta, á bls. 5 í skýrslunni:

„Þetta varð til þess að endurreisnaráætluninni var breytt þannig að reynt yrði með samningum að ná niðurstöðu um verðmat frekar en einhliða ákvörðun. Fyrir hönd nýju bankanna leiddi fjármálaráðuneytið viðræðurnar en fjármálaráðherra fór með eignarhald ríkisins í nýju bönkunum. Hinum megin borðsins voru skilanefndir gömlu bankanna studdar af fulltrúum kröfuhafa.“

Skýrara verður það ekki að það var hæstv. fjármálaráðherra sem leiddi þetta. Hann getur ekki skýlt sér á bak við það nema hann sé að segja að hans eigin skýrsla sé fullkomið rugl og ekki mark takandi á staf þar.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur mikið talað um að hér sé farið rangt með tölur, menn séu að fara rangt með tölur, og nefndi ákveðna fjölmiðla sérstaklega til sögunnar. En ég vil lesa beint úr skýrslu fjármálaráðherra, með leyfi forseta. Þar segir þegar verið er að ræða um framlögin í tengslum við þetta:

„Samtals var því varið 346 milljörðum kr. til stofnfjármögnunar bankanna eða einungis 40 milljörðum kr. minna en ráðgert var í upphaflegri áætlun.“

Þetta segir í þessari skýrslu hæstv. fjármálaráðherra og skýrara getur það ekki verið. (Gripið fram í.) En ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að þessar tölur eru ekki í samræmi við svör hæstv. fjármálaráðherra við fyrirspurnum mínum um framlög til bankanna. Það var því ekki samræmi þar á milli þegar kemur að eiginfjárframlagi og eru ekki öll kurl komin til grafar hvað það varðar.

Förum nú aðeins yfir hver eru rök hæstv. fjármálaráðherra fyrir því að fara í þessa stefnubreytingu en stefnan var lögð þegar menn fóru af stað með neyðarlögin sem allir eru sammála um að hafi farið afskaplega vel. Rök fjármálaráðherra, sem hann fór skýrt í, eru hefðbundin frjálshyggjurök. Einhver hefði verið kallaður ýmsum nöfnum ef hann hefði farið með þau sömu rök og hæstv. fjármálaráðherra fór með áðan. Hann taldi mikilvægt að ríkið ætti ekki bankana og að þeir sem ættu bankana mundu hugsa um langtímahagsmuni þeirra og það væri best fyrir viðskiptavinina. Vandinn er sá að það er mjög illa skilgreint hver á bankana. Það er alveg ljóst að það eru ekki sömu kröfuhafar og töpuðu hvað mest í hruninu. Þessar kröfur hafa gengið kaupum og sölum á mjög lágu verði og ljóst að kröfuhafarnir, sem keyptu eftir hrun, hafa nú þegar haft af þessu nokkuð góðan hagnað. Vandinn er sá að nýju bankarnir eru um margt munaðarlausir.

Önnur rök hæstv. ráðherra voru minni útgjöld fyrir ríkissjóð en hann tekur þá ekki tillit til þess að hugmyndin var sú í þessari þverpólitísku samstöðu innan þingsins meðal allra flokka að mikilvægt sé að ríkið eigi ekki banka, að það kæmi eitthvert endurgjald þegar menn mundu selja þá. Þetta snýst hins vegar um það hvert hagnaðurinn sem verður eftir kreppu fer. Nú eru það ársreikningar bankanna — hagnaður þeirra, sem er mikill, er fyrst og fremst vegna þess að menn eru að endurmeta lán. Sá hagnaður, og það hefur verið sýnt fram á það í hv. viðskiptanefnd, fer beint til kröfuhafanna.

En það var lagt upp með meira en einungis það að semja neyðarlögin á sínum tíma. Hvað átti að gera? Það átti að hagræða í bankakerfinu. Hefur það verið gert? Hefur verið hagrætt í bankakerfinu? Ég vek athygli á ummælum forstjóra Bankasýslu ríkisins sem segir að bankakerfið sé allt of stórt. Við erum ekki enn þá komin að niðurstöðu um hvað eigi að gera við sparisjóðina tveimur árum eftir að okkur var sagt í þessum sal að við þyrftum að drífa löggjöf í gegn vegna þess að það yrði að bjarga þeim, eins og það var orðað.

Það þurfti að fara í skuldaleiðréttingar. Til þess var leikurinn gerður. Hefur það verið gert? Ég vek athygli á því að vanskilalánahlutfallið í nýju bönkunum, nú tveimur og hálfu ári eftir hrun, er 40%. Það er hærra en var í þeim löndum í Asíu sem fóru verst út úr bankakreppunni þar.

Virðulegi forseti. Þegar maður fer að skoða þetta er öllum ljóst að eftirleikurinn hefur verið fullkomin mistök, og á því ber hæstv. ríkisstjórn ábyrgð. Ég vek athygli á orðum hv. þm. Lilju Mósesdóttur, sem þekkir innviði ríkisstjórnarflokkanna betur en við flest. Hvað sagði hv. þingmaður? Benti á hið augljósa orsakasamhengi — þegar menn voru að ganga frá Icesave-málunum var í gangi þjónkun við ESB-umsóknina. Það læðist að manni sá grunur að hér sé það nákvæmlega sama á ferðinni, að menn hafi verið að ganga til þessara samninga með aðildarumsóknina að ESB í huga, fyrst og fremst. Við sáum þetta í Icesave-málinu, við sáum þetta í innstæðutryggingarsjóðsmálinu og þegar menn líta á þetta og fá engin svör frá hæstv. fjármálaráðherra — af hverju var farið í þessa stefnubreytingu og af hverju hefur þeim markmiðum ekki verið náð sem lagt var upp með í byrjun, og allir eru í orði kveðnu sammála um — þá hlýtur maður að hugsa til þess hvort hér sé enn og aftur á ferðinni einhver minnimáttarkennd eða eitthvað þaðan af verra hjá hæstv. ríkisstjórn, að það þurfi að gera allt til að öðlast meinta viðurkenningu forustumanna ESB. Það er gert með því að fórna hagsmunum Íslands í Icesave, í því sem lýtur að endurreisn bankanna og þar með talið í innstæðutryggingakerfinu.