Skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 13:09:05 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.

694. mál
[13:09]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú varð alveg geysileg framför hér í umræðunni, mjög mikilvæg framför þegar hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, viðurkenndi að vitaskuld hefði orðið að viðhafa þarna réttláta málsmeðferð og að menn fengju eftir því sem kostur væri sannvirði fyrir eignir sínar. Þá getum við farið að tala saman. Þetta skiptir miklu máli. Ég vona að allir aðrir hv. þingmenn taki sér nú formann Sjálfstæðisflokksins til eftirbreytni og gangi héðan í frá í umræðum um þessi mál út frá þessari augljósu grundvallarstaðreynd. Þá erum við laus við alls konar vitleysu sem vaðið hefur uppi ef við bara höldum okkur við þessa augljósu staðreynd. Það var hún sem ég reyndi að draga hérna fram í dagsljósið sem að sjálfsögðu markar grundvöll allra aðgerða af þessu tagi ef þær eiga að fá staðist.

Það er ekki rétt að bankarnir hafi fengið sannvirðið og svo eigi þeir ávinningsvon upp á við. Það er nefnilega alls ekki svo. Þeir fengu minna en neðri mörk. Matið var undir neðri mörkum Deloitte-matsins í samningunum. Þar á er mikill munur upp í til dæmis efri mörkin sem þeir hefðu gjarnan viljað sjá niðurstöðuna enda í, um 280–350 milljarða munur frá samningsniðurstöðunni upp í miðgildið sem þeir hefðu sjálfsagt talið sanngjarnt að væri notað að lágmarki.

Það var kappsmál eins og útskýrt er í skýrslunni og ég fór yfir í framsöguræðu minni að reyna að ná þessu verðmati niður eins og kostur væri þannig að meira svigrúm væri til staðar. Það tókst. Niðurstaðan sem byggir þó á samkomulagi lagði upp með mjög hagstæðan grunn einmitt vegna þess. Það er í þágu viðskiptavina bankanna og innlenda hagkerfisins. Það var mjög mikilvægt að lendingin varð einmitt á þeim nótum.

Að sjálfsögðu var það andlag allrar þessarar vinnu að ná eins hagstæðri niðurstöðu og mögulegt væri fyrir íslenskt (Forseti hringir.) efnahagslíf, heimili og fyrirtæki út úr þessari endurreisn en þó þannig að það stæðist og við kæmumst upp með það gagnvart hinum aðila málsins.