Skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 13:13:54 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.

694. mál
[13:13]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð bara að segja alveg eins og er að mér finnst það ævintýralega ódýrt af formanni Sjálfstæðisflokksins að hann, meira að segja hann, hv. þm. Bjarni Benediktsson, skuli leggjast með í þann kór að hér hafi bara verið gengið erinda (Gripið fram í.) og teknir hagsmunir kröfuhafa. Ég kæri mig kollóttan um það þótt ýmsir aðrir í salnum geri það, en mér finnst alveg stórmerkilegt að meira að segja formaður Sjálfstæðisflokksins sé kominn í þvílíka kastþröng einhvern veginn í sinni pólitísku rökræðu að hann (Gripið fram í.) skuli fara í málflutning af þessu tagi. Auðvitað veit hann betur. (Gripið fram í.) Auðvitað veit formaður Sjálfstæðisflokksins á grundvelli reynslu sinnar og menntunar úti í viðskiptalífinu alveg að hlutirnir eru ekki svona vaxnir. Það efast ég ekkert um þannig að mér finnst heldur dapurlegt að heyra meira að segja formann Sjálfstæðisflokksins í þessum kór.

Hagnaður bankanna núna eins og ég reyndi að fara hér yfir í framsöguræðu minni er ekki síður til kominn vegna þess að vextir hafa lækkað í landinu. Vegna þeirra aðferða sem notaðar eru og voru notaðar við yfirfærslu eignasafnsins og núvirðingaraðferðanna myndast hagnaður hjá bönkunum þegar vextir lækka vegna framtíðarsjóðstreymisáhrifanna af eignasöfnum. Ég kann ekki nákvæmar tölur um hve stór hluti (Gripið fram í: Og með afskriftaþörf.) afkomunnar er þannig til kominn og að einhverju leyti vegna endurmetinnar afskriftaþarfar en þetta er sannarlega stór þáttur eins og reynt er að útskýra aðeins í skýrslunni og ég reyndi að útskýra í framsöguræðu minni.

Í þriðja lagi er mikilvægt að hafa í huga að lán til einstaklinga eru ekki undir þegar verðmæti eignasafns bankanna er metið, heldur lán fyrirtækjanna. Bankarnir hafa í þessu skyni ekkert út úr því að reyna að kreista meira út úr lánum einstaklinga. (Gripið fram í.) Þannig er það í samningunum, það liggur fyrir. Þar af leiðandi fellur um sjálfan sig allur þessi mikli málflutningur um veiðileyfi á einstaklinga, (Forseti hringir.) á almenning. Það hefur ekkert með það að gera, einfaldlega vegna þess hvernig samningarnir eru úr garði gerðir. Fyrirtækin gætu hins vegar miklu frekar kvartað undan því (Forseti hringir.) að þetta kynni að hafa áhrif á samskipti bankanna við þau.