Skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 13:18:40 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.

694. mál
[13:18]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fór yfir hina fjárhagslegu þætti þessara mála. Það hafa reyndar fleiri gert, þar á meðal formaður fjárlaganefndar í mjög góðri ræðu. Hvað sem menn rembast hér mun þeim ekki takast að víkja til hliðar þeirri borðleggjandi staðreynd að það hefur sparað ríkinu mjög mikla peninga að þurfa ekki að reiða fram allt eiginfjárframlagið í bankana með vaxtaberandi skuldabréfum til langs tíma. Sá sparnaður hefur þegar leitt til þess að við höfum getað lækkað vaxtakostnað ríkisins tvö ár í röð í fjáraukalögum, bæði árin. (Gripið fram í: … hagnaðinum?) Sérstaklega var á árinu 2009, þegar bakfærð niðurstaðan lá fyrir, hægt að lækka vaxtakostnaðinn sem gert hafði verið ráð fyrir í fjárlögum ársins 2009 um háar fjárhæðir eins og ég veit að hv. alþingismenn muna. Þar munaði mest um þennan þátt.

Samningarnir byggðu á valkvæðum möguleikum þess að uppgjör skuldabréfa eru á milli nýja bankans og gamla bankans eða að gamli bankinn tæki í stað þess bréfs eignarhlut í nýju bönkunum sem varð niðurstaða kröfuhafanna á grundvelli vals þeirra í tveimur tilvikum af þremur. Reyndar var það svo að í öðru tilvikinu breytti bankinn kröfu á nýja bankann vegna umframeigna sem fluttar höfðu verið yfir í hlutafé, en í hinu tilvikinu varð hann að koma með nýjar eignir inn í bankann vegna þess að meiri skuldir en eignir höfðu verið yfirfærðar. Þá kom beinlínis viðbótarfé inn í endurreisn nýja bankans frá þrotabúinu sem var Kaupþing í því tilviki.

Fjárhagslega er ég algerlega sannfærður um að þessari orrustu tapa þeir hv. stjórnarandstæðingar sem hér hafa reynt að elta Morgunblaðið út í ófæruna en það var með dæmalausar æfingar í þessum efnum sem ganga þvert á staðreyndir.