Skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 13:35:36 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.

694. mál
[13:35]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í sambandi við umræður um þessa skýrslu er alllangt síðan ég hafði samband við forseta og lýsti sérstökum áhuga á að hún kæmist sem fyrst á dagskrá. Ég setti það í hendur þingsins, eins og venjan er þegar svona skýrsla er send inn, hvernig þingið færi með hana. Það er alfarið í höndum þingsins. Ekki hefur staðið á mér að ræða hana og það er alllangt um liðið síðan ég hafði að eigin frumkvæði samband við forseta og óskaði eftir því að ef mögulegt væri yrði, þrátt fyrir annir á þinginu, þessi skýrsla tekin til umræðu eins fljótt og mögulegt væri og gefinn góður tími fyrir hana. Það er ekki við mig að sakast í þeim efnum. Hins vegar fagnaði ég því að þó að aðstæðurnar byðu upp á að það yrði að semja um einhvern afmarkaðan tíma vegna anna í þinginu væri mun betra að slík umræða færi fram en engin.

Varðandi þá sem leiddu þessa samninga verð ég að játa að var Þorsteinn Þorsteinsson, afar reyndur bankamaður og með mikla reynslu í þessum efnum, bæði af innlendum vettvangi og ekki síður erlendis. Hann hefur sinnt slíkum málum lengi og ég tel að hann hafi unnið það starf afar vel og leitt það af miklum dugnaði ásamt með lögfræðingum sem með honum voru. Ég þori ekki að nefna nöfnin, það borgar sig ekki að fara með nöfn nema maður sé alveg öruggur um þau, en mig rámar í nafn annars af tveimur lögfræðingum sem ég hygg að hafi verið með honum í þessu sérstaka stýriteymi. Fyrst og fremst stjórnaði þó Þorsteinn Þorsteinsson þessum viðræðum. Á grundvelli útboðs var síðan alþjóðlega lögfræði- og ráðgjafarfyrirtækið Hawkpoint valið til að vera íslenskum stjórnvöldum til aðstoðar í þessum samningaviðræðum og þar var unnið gríðarlega mikið starf í gegnum og á grundvelli sérfræðinga þess fyrirtækis enda verð ég að segja alveg eins og er að ég held að íslensk stjórnvöld hefðu ekki án utanaðkomandi hjálpar af því tagi ráðið við þetta risavaxna, flókna og mikilvæga verkefni.