Skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 13:37:40 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.

694. mál
[13:37]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra útskýringarnar á skýrsluumræðunni og tímanum. Þá stendur hér orð gegn orði og væri ágætt að fá leyst úr því síðar í dag.

Hæstv. ráðherra svaraði ekki einni spurningu minni: Hvers vegna var ekki reynt að gæta hagsmuna lántakenda í þessum samningaviðræðum og sett eitthvert hámarksþak á það sem kröfuhafar fengju að innheimta af þessum skuldum þannig að einhver hluti þeirra gengi þá til lántakenda?

Svo er ég með aðrar spurningar um þá aðferðafræði og ákvörðun að ganga til samninga við kröfuhafa þrátt fyrir hlutlaust og vandað mat Deloitte. Það kemur fram í skýrslunni að hæstv. fjármálaráðherra hafi verið hræddur við lögsóknir kröfuhafa og herskara þeirra af lögfræðingum og þess vegna gengið til samninga. Því langar mig að vita og fá svar frá hæstv. ráðherra: Liggja fyrir einhver lögfræðiálit um að Ísland mundi tapa fyrir dómstólum málum þar að lútandi þrátt fyrir hlutlaust og vandað mat Deloitte? Hvar eru þessi lögfræðiálit, ef þau liggja fyrir, og verða þau birt? Ráðherrar hljóta að taka mikilvæga ákvörðun sem þessa á einhverjum málefnalegum forsendum, væntanlega byggðum á lögfræðiálitum. Þá hlýtur þingið að eiga rétt á því að fá að vita hver þau álit eru.