Skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 13:39:16 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.

694. mál
[13:39]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hagsmuna innlends efnahagslífs, heimila og fyrirtækja var gætt eins og nokkur kostur var í þessum samningaviðræðum. Það var meðal annars ein af ástæðunum fyrir því að menn töldu mikilvægt að reyna að ná þessu saman með samningum. Ástæðurnar voru fjölmargar, ein var sú að tefja ekki frekar tímann, reyna að klára þetta verkefni þannig að hægt væri að fjármagna bankana og þeir gætu tekið til starfa en væru ekki með þann veikburða efnahagsreikning sem þeir voru settir af stað með, hver um sig með lágmarksfjárhæð sem þarf til að stofna fjármálafyrirtæki, 800–900 milljónir.

Í öðru lagi var auðvitað mjög mikilvægt að yfirfærsluverðið væri eins lágt og kostur er. Það hljóta allir að skilja hvers vegna. Og það tókst.

Í þriðja lagi voru uppgjörsbréfin og/eða eignarhluturinn í bönkunum, sem þeir menn áttu val um, afmörkuð fjárhæð, mjög vel afmörkuð. Í tveimur tilvikum völdu kröfuhafarnir eignarhlutinn og gera þá ráð fyrir því að bankinn þróist þannig að hann verði verðmæt eining og í fyllingu tímans fái þeir betri hlut út úr því en að hafa tekið uppgjörsbréfin. Það var þeirra val. Í báðum tilvikum er um afmarkaða fjárhæð að ræða. Það er algjör grundvallarmisskilningur að í því sé fólgið eitthvert allsherjarveiðileyfi utan takmarkana og að menn geti náð alltaf meiri og meiri aurum til sín. Þannig er það ekki.

Í tilviki Landsbankans var 92 milljarða bréf en á móti færist verðmætur 19% eignarhlutur til baka til ríkisins. Það mál getur með sama áframhaldi klárast mjög fljótt og orðið af heimi, einfaldlega með því að Landsbankinn geri það bréf upp og þá þurfa menn ekki að hafa frekari áhyggjur af því.

Í hinu tilvikinu geri ég frekar ráð fyrir því að um leið og skilanefndirnar meta það hagstætt fari þær að þreifa fyrir sér um sölu á bönkunum (Forseti hringir.) til nýrra framtíðareigenda. Og þá geta menn líka hætt að hafa áhyggjur af því.