Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 15:26:14 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:26]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað er alltaf álitamál hve mikið af reglugerðarheimildum eigi að vera í lögum en ég held að það sé full ástæða til að ræða tillögur Framsóknarflokksins. Ég held að hin nýju tíðindi um eflingu Framsóknarflokksins í dag hljóti að stuðla enn frekar að því að á milli okkar geti orðið samtal því að til liðs við þá er genginn einn af fyrrverandi stjórnarliðum sem ég hygg að hljóti að styðja svipuð markmið og við höfum haft í þessum málum.

Ég held að lengd nýtingarsamninganna, 20 ár í tillögu Framsóknarflokksins og 15 ár í okkar tillögum, sé nokkuð sem menn geti rætt nánar um (Gripið fram í.) og hvað þeir ætli að taka mikið af þeim heimildum sem eru og hve stóru hlutfalli af viðbótinni. Ég held að þau sjónarmið sé hægt að ræða. Ef menn vilja taka minna af þeim heimildum sem eru í dag og meira af þeim viðbótum (Forseti hringir.) sem verða þá ræða menn bara kosti og galla þess og athuga hvort þeir geti ekki komist að sameiginlegri niðurstöðu.