Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 15:36:15 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að ég hafi svarað þessu um veiðigjaldið ágætlega í fyrri ræðum mínum. Hvað varðar það að skoða hverjir sinna strandveiðunum held ég að það sé ósköp eðlilegt. Hér hafa verið uppi athugasemdir um það að menn selji sig út úr kerfinu aftur og aftur og leiki þannig á það í rauninni með því að gera sér að fjárverðmætum aftur og aftur sömu réttindin sem þeim er úthlutað vegna mannréttinda- og byggðasjónarmiða. Það er ástæða til að kanna þetta sem fram hefur komið hér hjá ýmsum án þess að ég ætli nokkurn dóm að fella um réttmæti þeirra fullyrðinga. Ég held að það sé líka ástæða til að kanna hverjir fá vinnu í gegnum strandveiðarnar því að auðvitað snýst þetta um atvinnusköpun og auðvitað dregur þá úr einhverri annarri vinnu í samfélaginu á móti. Er þetta þá sú atvinnusköpun sem við viljum sjá?

Ég held að það sé margt mjög jákvætt við strandveiðarnar og var mikill stuðningur við þær fyrir ári. Ég held að það sé full ástæða til að (Forseti hringir.) fara yfir það og meta reynsluna núna.