Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 16:25:18 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:25]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég vindi mér beint í lokaorð þingmannsins virðist vera orðin ansi mikil eftirspurn eftir þingmönnum Framsóknarflokksins í þessu máli sem öðrum. Okkur barst liðsauki í dag, hv. þm. Ásmundur Einar Daðason gekk til liðs við þingflokkinn þannig að við erum alltaf að styrkja okkur.

En það er alveg einkennilegur málflutningur hjá sérstaklega þingmönnum Samfylkingarinnar, eins og ég kom inn á í andsvari áðan, að þeir koma hér þingmaður eftir þingmann og þylja upp stefnuskrá Framsóknarflokksins í máli eftir mál. Það er að sjálfsögðu merki um að það er hvorki meiri hluti fyrir þessu frumvarpi hjá ríkisstjórninni né öðrum málum. Þeir verða bara að sætta sig við að hér er minnihlutastjórn. Hér hangir stjórnin á einu atkvæði. Þess vegna þarf að koma málum í gegn í ósátt, þess vegna er ekkert búið að gerast hér á landi í tæp þrjú ár frá hruni, frá því að vinstri stjórnin tók við völdum. Hún ræður einfaldlega ekki við verkefnið.

Ég ætla ekki að rifja upp atkvæðagreiðslur liðinna tveggja ára, tímans sem ég hef setið á Alþingi, en það vita allir hvað ég er að vísa í þegar ég tala um að ríkisstjórnin hafi oft þurft að sækja sér liðsstyrk út í sal. Á það er raunverulega stólað.

Það sem hins vegar birtist í þessu frumvarpi, úr því að þingmaðurinn kom aðeins inn á það, er þessi Evrópusambandsumsókn. Mig langar til að spyrja þingmanninn: Getur verið að nýliðunarákvæðin í þessu frumvarpi gætu hugsanlega verið aðlögun að ESB, að hingað komi menn og veiði úr fiskveiðilögsögunni okkar? Ríkisstjórnin virðist ekki treysta sér til að breyta lögunum um erlenda fjárfestingu í sjávarútvegi. Gæti þetta spilað (Forseti hringir.) á einhvern hátt saman að mati þingmannsins?