Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 16:35:49 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:35]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni kærlega fyrir ræðuna. Hann er að mínu mati algjörlega með þetta, eins og maður segir, gallana á þessum frumvörpum sem nú liggja fyrir.

Hér hafði náðst mikil og góð sátt um breytingar á kerfinu meðal hagsmunaaðila og stjórnmálaflokkanna, sátt sem allir voru sáttir við, og raunverulega var það eitt fram undan að byggja á henni lagafrumvarp og setja fram í þinginu. Í staðinn leggja hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra fram þetta frumvarp í nafni hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Við vitum að hann er á aftökulistanum í stjórnarráðsfrumvarpinu, það á að leggja ráðuneytið niður til að hægt sé að renna þessu undir forsætisráðuneytið eða undir nýtt atvinnumálaráðuneyti. Mig langar að spyrja þingmanninn hverja hann telji ástæðuna fyrir því að ríkisstjórnin hafi ekki gripið þetta fegins hendi, að hér væru komnir samningar sem allir sættu sig við. Hvað er um að vera hjá ríkisstjórninni varðandi þetta mál? Hvers vegna þarf ríkisstjórnin að leggja þetta fram í mikilli ósátt? Telur þingmaðurinn jafnframt að þetta sé hluti af 20/20-áætlun Evrópusambandsins vegna þess að við liggjum inni með umsókn að Evrópusambandinu?

Finnst ekki þingmanninum í þriðja lagi mjög einkennilegt að í 32. gr. hins síðara frumvarps standi að lögin skuli taka gildi strax og gilda einungis í 23 ár? Þegar betur er lesið um þá grein kemur hvergi fram hvað tekur við. Þá er sjávarútvegurinn í heilu lagi skilinn eftir í lausu lofti. (Gripið fram í.) Er það hluti af aðlögunarferli Íslands að Evrópusambandinu (Forseti hringir.) að mati þingmannsins?