Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 16:38:01 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:38]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Það er alveg með ólíkindum að við skulum vera í þessari stöðu eftir þá miklu vinnu sem sáttanefndin lagði á sig. Þar var fjallað um að það ætti að skoða fyrst og fremst tvær leiðir, annars vegar svokallaða fyrningarleið, innköllunarleið, og hins vegar svokallaða samningaleið.

Samfylkingin setti fram fyrningarleið fyrir síðustu kosningar, að algjörlega óathuguðu máli, leið sem ég fagnaði þá að Samfylkingin kæmi fram með vegna þess að ég sagði í þeirri kosningabaráttu, þegar fólk viðraði þessar hugmyndir, að þetta væri leið sem aldrei yrði farin, það væri augljóst mál, en ég vonaðist til þess að hún mundi leiða til málefnalegrar umræðu og að við næðum þá einhverri almennilegri niðurstöðu í málið.

Samningaleiðin var valin af nefndinni, og í sérstökum bókunum fulltrúa stjórnarflokkanna í nefndinni sagði meðal annars að það skyldi leitað sátta um stjórn fiskveiða meðal þjóðarinnar, að fiskveiðar yrðu hagkvæmar, sköpuðu verðmæti og störf og væru sjálfbærar, sköpuðu greininni þau bestu rekstrarskilyrði sem völ væri á.

Síðan halda hv. þingmenn stjórnarflokkanna því fram að það sé verið að nálgast þessi markmið, það sé verið að fara nákvæmlega í þann farveg sem sáttanefndin kom sér saman um. Það tók ríkisstjórnarflokkana átta mánuði að komast í gegnum niðurstöður sáttanefndarinnar og ég held að ástæðan fyrir því hversu illa hefur gengið sé að þessir þingmenn og þessir flokkar hafi verið búnir að lofa allt of miklu. Það hentar þeim að einhverju leyti að hafa þetta mál í ágreiningi.

Þegar það er borið á borð fyrir okkur og þjóðina alla að þetta sé á grunni þess samkomulags sem náðist í sáttanefndinni er það algjör vitleysa (Forseti hringir.) enda er ósættið algjört. Það hefur komið fram í umsögnum allra aðila sem sátu við þetta samningaborð að þeir telja að í grundvallaratriðum hafi verið vikið frá þeirri niðurstöðu sem náðist í sáttanefndinni.