Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 16:55:16 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:55]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég kalla eftir sáttatón í umræðu sjálfstæðismanna um þetta mál. Ég tek eftir því að þeir eru sammála okkur í nokkrum grundvallaratriðum um það hvernig breyta beri fiskveiðistjórnarkerfinu og það kemur ekki síst inn á tímabundna samninga. Til hve margra ára, við getum rætt það — 15 ára, 20 ára, 25 ára? Ég bendi á að í Noregi eru þeir til 18 ára en í Grænlandi til fimm ára, svo að við horfum nú bara til beggja stranda út frá Íslandi; fimm eða 18 ár, við erum að tala um 15 plús átta ár í endurnýjun.

Ég horfi líka til þeirra hugmynda sem hv. þm. Jón Gunnarsson hefur um veiðileyfagjaldið. Nú er það 6 kr. á kílóið, það er verið að tala um að fara upp í 13 kr. kílóið. Stórar útgerðir hér á Íslandi hafa verið að leigja veiðiheimildir, þorskkílóið, af Rússum í Barentshafi á 70 kr. Þeir eru að kvarta yfir því að hækka það upp úr 6 kr. upp í 13 kr., en eru sjálfir að leigja það á 70 kr. af öðrum ríkjum. Hver telur hann að eðlileg renta af þessari þjóðarauðlind eigi að vera til handa ríkissjóði eða (Forseti hringir.) auðlindasjóði? Getum við farið úr 6 kr. og þá upp í hvaða upphæð?