Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 16:56:34 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:56]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kallar eftir sáttatón frá sjálfstæðismönnum. Sáttatónninn liggur í niðurstöðum sáttanefndarinnar. Sá sáttatónn sem ríkisstjórnarflokkarnir ættu núna að ganga fram fyrir skjöldu með er sá að kalla þessi frumvörp til baka, setjast niður með þessum stóra hópi sem komst að víðtækri sátt og skilaði af sér í september á síðasta ári; setjast niður með honum, útfæra þær leiðir sem þar lágu til grundvallar og klára málið fyrir haustið. Þetta er vel hægt. Sjálfstæðisflokkurinn er tilbúinn til að taka þátt í því starfi af heilindum.

Það á nefnilega eftir að útfæra þetta. Tíminn er ekkert aðalatriðið. Hann þarf að vera þannig að menn stundi langtímafjárfestingu í þessari grein, skammtíma- og langtímafjárfestingu. Þannig verður það að vera. Hvað á veiðileyfagjaldið að vera? Eðlileg renta? Menn verða að gera hagfræðilegar úttektir. Gerð var hagfræðileg úttekt á leið Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar — hún fékk algera falleinkunn. Það er kannski (Forseti hringir.) byrjunin að við skoðum það hvað er raunhæft að skattleggja sjávarútveginn umfram annað. Það eru til (Forseti hringir.) leiðir til þess og sjávarútvegurinn hefur lýst sig reiðubúinn til að taka þátt í þeirri vinnu.