Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 17:06:11 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:06]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að sátt náist. Stjórnarliðar hafa haldið því fram í ræðustól að þessi frumvörp séu góð, það sé þó ýmislegt sem megi laga og bæta. Ég held að engin sátt náist fyrr en ríkisstjórnin ákveður að draga þau til baka og vinna þau betur í sumar. Það er ekki hægt að leggja í þessa vinnu öðruvísi. Ég hrósaði því í gær að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefði skipað þessa nefnd, sáttanefndina svokölluðu, og gladdist yfir því skrefi. Eitt tókst þó hæstv. ríkisstjórn, henni tókst að fá hagsmunaaðila í þessari sáttanefnd til að sættast á ákveðna niðurstöðu. Svo afrekar hún í framhaldinu að fá alla þessa aðila til að vera sammála um að þessi frumvörp séu ekki eins og um var talað. Aftur eru þessir hagsmunaaðilar, sem margir hverjir hafa eldað saman grátt silfur í gegnum tíðina, sammála um að ríkisstjórnin hafi ekki lagt þessi frumvörp fram þjóðinni og sjávarútveginum til heilla.