Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 17:16:43 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:16]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að upplýsa forseta um að það er alrangt að hæstv. sjávarútvegsráðherra sé að fylgjast með þessari umræðu. Ég horfði á hann og formann sjávarútvegsnefndar sitja hér frammi á kaffistofu að drekka kaffi og spjalla saman þannig að þau voru ekki að fylgjast með þessum umræðum. Þær upplýsingar sem hæstv. forseti hefur um það eru rangar.

Það er ekki gott hvernig þessu er hagað í þinginu núna, sérstaklega í ljósi þess að við þingmenn sem hér höfum rætt þetta mikilvæga mál á málefnalegum grundvelli höfum ítrekað kallað eftir viðveru hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra við þessa umræðu, sérstaklega í ljósi þeirra ummæla sem hæstv. forsætisráðherra hefur látið falla. Vegna umsagnar fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins ætti hæstv. fjármálaráðherra líka að vera á staðnum.

Ég hvet virðulegan forseta til að óska eftir því að þetta fólk komi (Forseti hringir.) á staðinn.