Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 17:32:04 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:32]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég verð að segja að mér fannst hæstv. ráðherra ekki svara mjög skilmerkilega fyrstu spurningu minni, um það hvort hann hefði haft samband eða samráð við Hafrannsóknastofnun um þessa aukningu, hvort hann hefði fengið einhverjar vísbendingar um að óhætt væri að auka við úthlutun á þorskkvóta á þessu fiskveiðiári, hvort hann hefði eitthvað rætt það við stofnunina.

Það þýðir ekki að koma hingað upp og segja að það standi „allt að“ 2.400 tonnum af þorski, sem bæta megi við, og 600 tonnum af ufsa á þessu fiskveiðiári. Ég vil bara minna á að strandveiðarnar standa í fjóra mánuði. Nú er búinn einn mánuður og næsti að byrja. Það er sem sagt tæplega helmingurinn eftir af strandveiðinni. Til hvers er verið að gefa einhverja heimild til hæstv. ráðherra, með orðalaginu „allt að“, um að bæta við á því fiskveiðiári sem er núna? Það er að verða búið. Auðvitað á að standa hér skýrt, og koma um það skýr skilaboð frá þinginu, hvað er heimilt að bæta miklu við, en ekki setja það í hendur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að ákveða það einn. Það á að gera þetta á þann veg að það verði afmarkað. Ég kann alveg að lesa og sé að það stendur „allt að“, en mér finnst það algjörlega fáránlegt að þannig sé það.

Hæstv. ráðherra væri varla að sækja um þær heimildir, að bæta við þessum 2.400 tonnum af þorski og 600 tonnum af ufsa, nema hann ætlaði sér að nýta það. Til hvers er þá verið að sækja um það? Það er algjörlega óskiljanlegt. Og það eru engin svör.

Ég ítreka því þessar spurningar: Hefur hæstv. ráðherra eitthvað rætt við Hafrannsóknastofnun um það hvort óhætt sé, að það hafi ekki áhrif á stofninn eða stofnstærðina á þessu fiskveiðiári, að bæta við þeim heimildum sem ætlunin er að gera?

Hæstv. ráðherra segir síðan um þetta ákvæði og vitnar til Byggðastofnunar — ég tel að gerð hafi verið mistök við gerð frumvarpsins og ég treysti því að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd leiðrétti það — að það hafi verið sett inn á sínum tíma á byggðalegum forsendum. En úthlutun á byggðakvóta í dag verður áfram og er á þeim forsendum. Ég tel því brýnt, til að undirstrika mikilvægi þessarar góðu stofnunar, að þetta fari ekki út.