Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 17:49:01 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:49]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins út af þessu sem hv. þingmaður heldur áfram að segja um oftrú á Landhelgisgæslunni er ekki útilokað að upp komi þær aðstæður að hún geti ekki brugðist við aðsteðjandi vandamálum. Það er ekkert sem getur komið í veg fyrir það. Það getur gerst í dag. Það er búið að skera það mikið niður að hún er ekki með nógu mikla mönnun til að tryggja nægjanlega öryggismálin og til að verða við beiðnum um útköll. Þannig er staðan í dag. Ég hef sagt í þingsal að vonandi gerist það aldrei en það er ekki útilokað að í dag komi neyðarkall frá sjómönnum sem verður ekki hægt að bjarga. Það verður ekki hægt þó að ekki vanti viljann hjá þessu góða fólki. Það verður ekki hægt vegna niðurskurðar til Landhelgisgæslunnar. Það er staðreyndin í dag. Auðvitað treystum við á að það muni ekki gerast. Við vitum líka að allir sem stunda sjóinn reyna að forðast að lenda í þeim aðstæðum sem hv. þingmaður lýsti, en þær geta (Forseti hringir.) vissulega komið upp eins og hann bendir á.