Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 18:01:11 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:01]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var að hugsa það meðan hv. þingmaður svaraði og talaði um hina hreinu vinstri stjórn að mér finnst ekki mikið hreint við þessa vinstri stjórn. Það er óljóst hvaða utanríkisstefnu hin hreina vinstri stjórn hefur, hvaða stefnu um gjaldeyrishöft og fjármagnsmarkaði, sjávarútvegskerfið og ýmislegt annað. Það er ekki mikið hreint við stefnuna, ég held að það sé alveg ljóst.

Hv. þingmaður nefndi hvernig nýliðun gæti átt sér stað ef veðsetningar væru bannaðar í sjávarútveginum og í greininni. Við getum hugsað okkur ef hv. þingmaður ákvæði allt í einu að hætta á þingi og reyna að gerast trillukarl, hvernig honum gengi að kaupa sér bát eða skip og afla sér heimilda til að róa ef hann hefði ekki neitt til að veðsetja. Þá gef ég mér að þingmaðurinn sitji ekki á fúlgu fjár sem ég held að fæstir þingmenn geri.

Því langar mig að spyrja þingmanninn hvort það sé ekki réttur skilningur að þingmaðurinn tali fyrir því að einhvers konar veðsetning, hvort sem er takmörkunum háð að einhverju leyti eða hvernig það er, sé nauðsynleg til að nýliðun geti átt sér stað. Ég hef sagt að ég fái það ekki til að ganga upp að maður þurfi að geta veðsett eitthvað, sérstaklega skip að sjálfsögðu og mögulega nýtingarsamningana. Ég vil að það komi fram hér að mér finnst sjálfum óásættanlegt að mögulega veðsetning á nýtingarsamningum í greininni sé nýtt í eitthvað allt annað, brask eða eitthvað slíkt. Það finnst mér ekki gott og í raun ekki koma til greina.