Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 18:03:20 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:03]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi er við völd í landinu fyrsta hreina vinstri stjórnin í sögunni sem stýrir landinu með sínum sósíalísku viðhorfum sem byggja á boðum og bönnum og mjög takmarkaðri virðingu fyrir eignarrétti manna, atvinnufrelsi og frelsisréttindum almennt. Það er svo langt gengið að atvinnurekendur á almennum markaði hafa þurft að sæta því að ríkið hefur hert sig í samkeppni við einkaaðila á ýmsum sviðum þannig að við erum að sveigja í þá átt sem við vildum ekki sveigja og ráðstjórnarríkin í austri brutust undan fyrir ekki svo löngu. Þetta er sú þróun sem átt hefur sér stað í tíð þessarar hreinu vinstri stjórnar. (Gripið fram í.)

Á vinstri stefnu þessarar ríkisstjórnar er þó ein undantekning og hún birtist í þessum frumvörpum hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hún snýr að nýliðun í sjávarútvegi sem var nokkuð sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson nefndi. Í frumvörpunum er nefnilega lagt blátt bann við beinni og óbeinni veðsetningu í sjávarútvegi. Þetta þýðir (Gripið fram í.) að þeir sem ekki hafa mikið á milli handanna, ungt, sprækt fólk sem vill hasla sér völl í sjávarútvegi, eiga ekki möguleika á því að hefja fiskveiðar og ráðast í fjárfestingar á fiskiskipum, veiðarfærum og öðru því sem til þarf til að hefja útgerð. Ástæðan fyrir því er sú að verði frumvarpið að lögum verður þeim ekki heimilað að veðsetja fyrir því lánsfé sem nauðsynlegt er til að hefja reksturinn. Þetta þýðir að verði frumvarpið að lögum mun eina nýliðunin í sjávarútvegi eiga sér stað hjá þeim sem hafa fullar hendur fjár, hjá auðmönnum. Öðrum eru allar dyr lokaðar. Hin hreinræktaða vinstri stjórn hefur opnað sinn dúnmjúka og breiða faðm fyrir auðmönnum sem vilja hefja útgerð á Íslandi. (Forseti hringir.) Öðrum eru allar bjargir bannaðar.