Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 18:22:34 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:22]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er áhugaverð pæling. Mér finnst einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokksins og reyndar Samfylkingarinnar óttast þetta jafnræði og álit fjárlagaskrifstofunnar á broti á stjórnarskrá varðandi þetta ákvæði, ekki allir reyndar. En í ljósi þess að fyrir 10, 15 árum voru samþykkt lög um þjóðlendur þar sem m.a. er skilgreint sérstaklega að hver þjóðlenda fái sitt eigið númer og þær tekjur sem þar verða til, eins konar auðlindagjald af nýtingunni, eigi að renna til viðkomandi þjóðlendu, reyndar 100% í því tilviki að mig minnir, til uppbyggingar og reksturs þeirrar þjóðlendu þá fyndist mér það í sjálfu sér ekkert jafnræðisbrot ef hluti af auðlindagjaldinu rynni til landshlutans.

Ef við hins vegar hugsum þetta eins og hv. þingmaður nefndi, að gripið verði til sértækra aðgerða, þá er það einmitt það sem menn á landsbyggðinni hafa oftast gagnrýnt, þá er oft talað um að það sé verið að koma með einhverjar byggðaölmusur og styrki, í staðinn fyrir að nýta þá fjármuni sem svo sannarlega verða til í landshlutanum og hleypa heimamönnum (Forseti hringir.) að því að stjórna þeim fjármunum. Það finnst mér áhugaverðari skoðun.