Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 18:39:45 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Vegna athugasemda hv. þingmanns um að ræða mín hafi ekki verið efnisleg stóð hún bara í fimm mínútur og ég varð að koma inn á það hvernig þessi tvö mál komu inn til þingsins af því að ég hef ekki enn fengið svari við því hvað gerist ef við samþykkjum seinna frumvarpið. Þá hverfur þetta frumvarp, það bara hverfur, lögin eru fallin úr gildi.

Varðandi það að ákveðinn hluta af skuldum, 50–60%, sé vegna kaupa á kvóta er það einmitt arðsemismerki. Menn keyptu kvóta af útgerðum sem væntanlega voru ekki eins vel reknar. Það er að mínu mati gott merki um að greinin sé að reyna að laga stöðuna hjá sér, reyna að auka arðsemina, og ætti þar af leiðandi að gleðja hv. þingmann. Það sem ég hef áhyggjur af er sá hluti af skuldum sjávarútvegsfyrirtækja sem fór út úr greininni til kaupa á hlutabréfum í allt öðrum og óskyldum rekstri. Það eru skuldir sem ekki eru kerfinu sjálfu að kenna, heldur dönsuðu útgerðarmenn þar í útrásinni.