Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 18:43:23 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það voru í reynd allt aðrir þættir og kraftar í gangi. Þegar vextir lækka eykst virði tekjustrauma í öllum greinum, jafnt íbúðarhúsnæði, hlutabréfum og kvóta. Verð á árlegum veiðiheimildum er eins konar ávöxtun á verði varanlegra veiðiheimilda. Þegar vextir í heiminum lækka og aðgangur manna að fjármagni vex — og íslensk sjávarútvegsfyrirtæki höfðu aðgang að mjög ódýru erlendu fjármagni — hækkar verðið á þeim tekjustraumum sem felast í kvótanum. Þá hækkar varanlegur kvóti eðlilega líka. Þetta sáum við í húsnæði um allan heim, þetta sáum við í hlutabréfum og þetta sáum við í kvóta á Íslandi.

Svo þegar vextirnir hækka, aðgangur manna að fjármagni verður takmarkaður og það kemur jafnvel álag ofan á vexti vegna stöðu Íslands eftir hrun lækkar þetta allt saman. Það gæti verið skýringin á því að íbúðarhúsnæði hefur lækkað, hlutabréfin hrunið og verð á kvóta lækkað. Það leiðir líka til þess að fyrirtækin eru þá of skuldsett vegna þess að þau tóku lán meðan vextirnir voru mjög lágir og hefðu getað staðið undir þeim vöxtum en svo hækka vextirnir og þá standa þeir ekki lengir undir vöxtum. Þá heitir það ofskuldsetning.