Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 20:27:41 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:27]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst alvarlegt ef þingflokkur Samfylkingarinnar hefur ekki talið ástæðu til að staldra við og fá t.d. stjórnlagaspekinga til að fara yfir umsögn fjármálaráðuneytisins.

Á hinn bóginn vil ég undirstrika varðandi veiðileyfagjaldið að við tengjum nýtingarsamninga. Ég fagna því sérstaklega sem hv. þingmaður sagði áðan þegar hann gaf í skyn að nýtingartíminn sem gefinn var upp í báðum frumvörpunum væri allt of skammur. Hann er allt of skammur og ef við tengjum hann t.d. við orkuna erum við kannski að tala um 30–40 ár, jafnvel 60 ár. Auðvitað þurfa sjávarútvegsfyrirtækin að fá ákveðna vissu fyrir því að með því að greiða ákveðið auðlindagjald fyrir aðgang að auðlindinni fái þau nýtingarsamninga til langs tíma svo að óvissan verði ekki alger.

Ég kvíði því ef fara á með málið til þingnefndar og taka það síðan þaðan út með töngum sem ég spái ef það fer þangað. (Forseti hringir.) Fyrst málið fór með þessum hætti í gegnum þingflokk Samfylkingarinnar hvað mun þá ríkisstjórnin gera til að beita sér gagnvart þingnefndinni í þessu máli? Ég er hrædd um að hún muni beita sér af fullum krafti og taka málið út með töngum (Forseti hringir.) hvort sem okkur líkar það betur eða verr.