Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 21:13:28 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:13]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég gat um í ræðu minni er ég ekki endilega sáttur við að pottarnir fari alveg upp í 15%. Ég tel að meginhluti pottanna eigi að vera á viðskiptalegum forsendum og helst allur. Þar nefni ég leigupottana og að menn geti komist í þá á viðskiptalegum forsendum. Ég geld varhuga við aðkomu stjórnmálamanna að því pottakerfi. Ég geld sérstaklega varhuga við því að menn útvisti þau völd til sveitarfélaganna sem held ég að afþakki með öllu að taka þátt í að stýra hluta þeirra potta sem nú er verið að innleiða. Almennt séð er ég þeirrar skoðunar að þessi grein eigi að vera rekin á viðskiptalegum forsendum en ekki pólitískum, eins og ég gat um, og þess vegna er mjög brýnt að það pottakerfi sem mun verða við lýði eftir breytingarnar lúti reglum viðskiptalífsins, (Forseti hringir.) enda á þessi grein það skilið.