Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 21:16:58 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:16]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Við hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson erum sammála um að við viljum að sjávarútvegurinn sé rekinn á viðskiptalegum forsendum en minna frumvarpið af þessum tveimur stóru fer einmitt í þveröfuga átt.

Hv. þingmaður ræddi um hokur landbúnaðarkerfisins. Ég held einmitt að fram undan séu fyrstu steinarnir á hinni vörðuðu leið aukins hokurs ef þetta frumvarp verður samþykkt, sjávarútvegurinn mun enda eins og landbúnaðarkerfið hefur verið byggt árum saman, menn eru allt of mikið í einhverju hokri.

Þrjár spurningar til hv. þingmanns:

1. Skildi ég hann rétt, er hann á móti framsalinu? Er það meginástæða þess að hann styður þetta frumvarp? Framsalið er lykilforsenda þess að hægt sé að hafa sjávarútveg rekinn á viðskiptalegum forsendum.

2. Telur hann það ekki of mikið þegar þetta er allt lagt saman, 15%, í þessa potta? Auðlindagjaldið hækkar. Telur hann það ekki of mikið þegar allt er komið og of mikið álag á sjávarútveginn þannig að hann geti ekki verið rekinn á arðbæran hátt? (Forseti hringir.)

3. Er hann ekki hræddur um það ráðherraræði sem fylgir frumvarpinu? Er hann ekki sammála mér um að hér er um að ræða algjört ráðherraræði?