Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 21:18:17 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:18]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er vissulega töluvert ráðherraræði í þessum frumvörpum báðum, ekki síst því minna. Ráðherraræði hefur verið við lýði í þessari grein mjög lengi. Ráðherrar hafa verið mjög valdamiklir í sjávarútvegsráðuneytinu í tíð sjálfstæðismanna og framsóknarmanna og hafa sem slíkir beitt sér mjög í greininni. Það þekkir hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Almennt séð er ég á móti ráðherraræði í þessari grein. Greinin á að lúta almennum reglum og vera rekin á viðskiptalegum forsendum.

Hvað framsalið snertir lýtur fyrirvari minn við þetta mál að nokkru leyti einmitt að framsalinu. Auðvitað er ég á móti varanlegu framsali. Ég tel að takmarkað framsal eigi að vera til staðar í þessari grein til að sveiflujafna, til að auka hagræði í greininni. Það er gert ráð fyrir 25% framsali innan ársins í þessum frumvörpum. Það þarf að skoða þá prósentu. Ég tel mjög brýnt að (Forseti hringir.) sveigjanleiki sé áfram til staðar í kerfinu.