Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 21:24:34 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:24]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil að það komi skýrt fram að bæði þeir sem hafa keypt sig inn í greinina og þeir sem hafa selt hafa að sjálfsögðu allir verið að vinna eftir lögunum. Þeir sem hafa selt sig út úr greininni hafa oft og tíðum, einmitt í ljósi niðurskurðar á heimildum, ekki haft neitt val. Það er búið að skerða heimildirnar svo mikið þegar verið er að skerða kvótann að þeir hafa ekki val, þeir geta ekki rekið fyrirtækin áfram. Það er ekki það að þessir menn vilji endilega hætta og selja. Þeir hafa kannski ekki val, svo allir njóti sannmælis.

Hv. þingmaður sagði að þeir ættu þá ekki að vera fyrsti kosturinn en það var nefnilega þannig. Það hefur komið fram í umræðunni í dag að það er mikilvægt að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd skoði þetta sérstaklega vegna þess að mjög margir menn í strandveiðunum eru búnir að selja sig út úr greininni, eins og hv. þingmaður benti réttilega á, einu sinni, tvisvar, þrisvar, fjórum og fimm sinnum. Þær staðreyndir blasa við og þess vegna var mjög dapurlegt að þegar þetta gerðist voru þeir, einmitt eins og hann sagði, ekki fyrsti kostur en það var enginn vilji hjá núverandi stjórnarflokkum (Forseti hringir.) að útiloka þá, a.m.k. þetta eina ár sem var þá mögulegt að gera það.