Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 22:17:40 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:17]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú svo með þessi reglugerðarákvæði að þau eru allmörg, það er alveg hárrétt. Varðandi það frumvarp sem við ræðum hér, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, þá er í sjálfu sér engin sérstök viðbót í þeim efnum. Það sem kannski byrgir hv. þingmönnum sýn er að ein greinin er prentuð upp nákvæmlega eins og hún er í núgildandi lögum, þ.e. um byggðakvóta, þar sem eru nú þegar mörg ákvæði um útfærslu samkvæmt reglugerð. Það er bara þannig með svona fjölþætta atvinnugrein að menn þurfa að vera reiðubúnir að bregðast við breytingum á ýmsum sviðum — þetta byggir jú á lífríkinu og það getur breyst skyndilega og ýmsir þættir sem þarf að taka tillit til — og þess vegna eru allmargar reglugerðarheimildir í þessu. Þessi sömu reglugerðarákvæði hafa verið um nokkuð langa hríð og hafa þannig öðlast vissa stöðu og vissa hefð. Það er engin sérstök viðbót hvað þetta varðar í þessu frumvarpi.

Varðandi nýtingarsamningana sem eru í því frumvarpi sem ekki hefur enn verið mælt fyrir og þar sem verið er að tala um að breyta ákveðnum grundvallaratriðum í kerfinu í sjávarútveg er annars vegar byggt á nýtingarsamningum til 15 ára og síðan er möguleiki að framlengja þá í (Forseti hringir.) sjö ár. Það er gríðarlega mikil trygging í sjálfu sér í þessum nýtingarsamningum miðað við þá stöðu sem nú er.