Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 22:23:26 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:23]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er nákvæmlega rétt sem kom fram hjá hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni, að hvergi er meira frumskógarlögmál ríkjandi en einmitt í strandveiðunum. Ég mótmæli því sérstaklega að óheft markaðshyggja sé tengd sjávarútveginum heldur er mikil reglufesta á þeim markaði sem er til staðar fyrir sjávarútveginn, en ráðherrann er að færa sig frá þá þeirri miklu reglufestu sem þar er yfir í þetta ráðherraræði.

Ég tel að þessu fylgi meiri óvissa sem þýðir að það eru minni hvatar, bæði fyrir útveginn og aðra sem koma að sjávarútveginum, til að byggja upp sjávarútveginn, þar á meðal að umgangast auðlindina sem slíka. Það hefur verið einn helsti styrkleiki íslenska kerfisins, mun meiri en annars staðar, að við erum með sjálfbærni í nýtingu nytjastofnanna meiri en nokkurs staðar annars staðar. Íslenska sjávarútvegskerfið, eins og það er uppbyggt í dag, er fyrirmynd annarra þjóða, m.a. þess draumasambands sem hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra Jón Bjarnason lítur til, sem er Evrópusambandið. [Frammíköll í þingsal.]