Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 22:32:05 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður fór mjög víða í sinni ræðu þótt stutt væri en kom ekki inn á hvaða gildi það hefur að framsalið sé sem frjálsast. Því frjálsara sem framsalið er þeim mun meiri arðsemi er í greininni. Alls konar kvaðir eru á framsalinu. Menn þurfa að veiða helminginn af þeim aflaheimildum sem þeir eiga. Þetta frumvarp, og sérstaklega fylgifrumvarpið, felur í sér enn meiri kvaðir á útgerðina, arðsemin mun minnka. Eins og hér hefur komið fram á jafnvel að fjölga í greininni.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvað gæti komið á móti því ef við mundum hugsa okkur að gefa framsalið algjörlega frjálst. Gæti komið á móti að allur fiskur færi á markað? Væri það lausn? Hvað getur komið á móti ef við ætlum líka að auka arðsemina hjá útgerðarmönnum með þeim hætti?

Síðan vildi ég spyrja um þróunina. Einu sinni voru bara stór skip að veiða. Síðan komu smábátar og þeir byrjuðu með um 4–5 þús. tonn og enduðu í 60 þús. tonnum, síðast þegar ég kíkti á, það er reyndar mjög langt síðan. Þeir tóku því sífellt stærri og stærri hlut af kökunni frá þeim sem fengu kvótanum úthlutað upphaflega. Nú eru strandveiðarnar að byrja. Þær eiga eftir að vaxa mjög mikið, fyrst sem sóknarmark og svo kemur að því að menn klára allan aflann á kannski tveimur tímum eins og á lúðuveiðum sums staðar við Bandaríkin. Þá munu menn setja það í aflamark og þá munu þeir sem hafa stundað þetta koma inn í kerfið aftur.

Spurningin til hv. þingmanns er: Hvernig líst honum á þessa þróun aftur og aftur? Er ekki ýmislegt til vinnandi að koma í veg fyrir að alltaf sé verið að (Forseti hringir.) útþynna kerfið og gera það óhagkvæmara?