Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 22:36:25 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil bæta í spurningarnar. Ef maður skoðar frumvarpið eru heimildir hæstv. sjávarútvegsráðherra auknar, það er eins konar ríkisvæðing. Það minnir skuggalega á uppbyggingu efnahagslífs í fyrrum Sovétríkjunum og í kjölfarið fór það kerfi á hausinn vegna þess hvað þar var orðin mikil ríkisvæðing og einhverjir menn við skrifborðin áttu að ákveða alla hluti. Sér hv. þingmaður hættu á því hér í kjölfar þess sem verður ákveðið? Þá erum við líka komin með ESB-vinkilinn á málið. Evrópusambandið tekur upp mjög skynsamlegt kerfi Íslendinga um framsal og annað slíkt á sama tíma og við víkjum frá því. Við skulum gefa okkur það að þeir Evrópusinnar, þar á meðal vinstri grænir sem vilja ganga í Evrópusambandið, nái markmiði sínu, að við göngum inn. Þá erum við í þeirri skrýtnu stöðu að þurfa að taka aftur yfir íslenskt kerfi frá Evrópusambandinu eftir að hafa (Forseti hringir.) hent því kerfi hér.