Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 23:25:13 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:25]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Eitt sem hv. þingmaður kom inn á var þetta alræðisvald sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er falið. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki miklar áhyggjur af því, sérstaklega í ljósi þess hvernig það hefur verið nýtt. Mig langar til að fara yfir tölur úr strandveiðunum á þessum fyrsta mánuði sem þær hafa verið leyfðar, í maímánuði. Til að mynda á svæði B eru 85 bátar og fá úthlutað 355 tonnum. Á svæði A eru 183 bátar og fá úthlutað 499 tonnum. Ef það væri samræmi þarna á milli ættu yfir 700 tonn að vera á svæði A miðað við fjölda leyfa sem eru gefin út. (Gripið fram í: Hver ákveður þetta?) Það er hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem ákveður þetta einhliða og spyr engan að því.

Þetta er líka dálítið merkilegt í ljósi þess að hæstv. ríkisstjórn hélt sérstakan fund vestur á fjörðum þar sem átti að bregðast við því sem var að gerast en það eru akkúrat trillusjómenn vestur á fjörðum sem þurfa (Forseti hringir.) að sæta þessu misrétti. Hefur ekki hv. þingmaður áhyggjur af þessu?