Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 23:27:37 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:27]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. En það er annað sem mig langar til að spyrja hv. þingmann um af því að hv. þingmaður á sæti í allsherjarnefnd. Ég hef verulegar áhyggjur af því að verið er að búa til nýjan strandveiðiflokk sem er undir þremur tonnum og þá koma fyrst upp í huga minn öryggismál sjómanna. Það mætti líka nefna meðferð á afla en menn hafa á svona litlum bátum takmarkaða getu til að meðhöndla aflann.

Ég vil fyrst og fremst ræða öryggismál sjómanna við hv. þingmann. Eins og búið er að Landhelgisgæslunni í dag vitum við að hugsanlega getur hún ekki brugðist við ef sjómenn lenda í erfiðum aðstæðum og þurfa á aðstoð hennar að halda. Málum er þannig komið í dag að Landhelgisgæslan getur ekki brugðist við útkalli vegna þess að hún hefur ekki þær vaktir sem hún þarf að hafa til að tryggja nægilegt öryggi sjómanna. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að búa til þennan flokk smábáta, sem eru mjög litlir bátar, og að það muni enn frekar auka hættuna (Forseti hringir.) þegar svona bátar eru settir inn í sóknarmarkskerfi þegar öryggismálin eru með þessum hætti?