Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 23:30:06 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:30]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er stundum svo að maður kemst varla upp í ræðustól fyrir kjánahrolli. (Gripið fram í.) Ég vil biðja hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur um að útskýra það betur fyrir okkur hvernig þau frumvörp sem hér eru til umfjöllunar og hún gerði að umtalsefni í ræðu sinni eru á einhvern hátt að undirlagi Evrópusambandsins. Er það í alvörunni meining hv. þingmanns að Evrópusambandinu hafi með einhverjum slóttugum og lymskufullum hætti tekist að telja Jón Bjarnason á að flytja þessi mál fyrir sína hönd þannig að það gæti náð yfirráðum yfir auðlindinni eftir 23 ár?

Svo hefur verið á það bent að sú stefna sem birtist í þessum frumvörpum sé ekki svo ýkja fjarri stefnu Framsóknarflokksins í sjávarútvegsmálum. Er það þá virkilega svo að stefna Framsóknarflokksins sé líka einhvers konar þjónkun við Evrópusambandið? Hvers lags málflutningur er þetta eiginlega sem verið er að bjóða fólki upp á?