139. löggjafarþing — 139. fundur,  2. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[00:25]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Ég held að hann hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann sagði að þetta fjallaði bara um pólitíska leiki. Hæstv. forsætisráðherra sem á að vera sameiningarafl þjóðarinnar núna á þessum tímum þrífst nefnilega á ófögnuði, erjum og deilum.

Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki séð sér fært, eftir þó það miklar yfirlýsingar um að enginn annar en þessi ríkisstjórn gæti komið þessum miklu breytingum á, að sitja hér og hlusta á eina einustu ræðu, ekki taka þátt í neinni umræðu. Hæstv. forsætisráðherra kemur á flokksráðsfund Samfylkingarinnar og lætur klappa þar fyrir sér og slagorðunum, með því að vera með fúkyrði út í greinina. Það er eins og þetta fólk skilji ekki að þetta er undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Hvað þýðir það? Það þýðir að þjóðin byggir velferð sína á þessari atvinnugrein.

Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann geti tekið undir það með mér að í raun vilji hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) vera í fréttum og fjölmiðlum að ræða málið með þessum fúkyrðum út í atvinnugreinina í stað þess að svara fyrir vandamálið sem snýr að skuldavanda (Forseti hringir.) heimilanna og fyrirtækjanna og öllu þessi frosti sem er í efnahagslífinu.