139. löggjafarþing — 139. fundur,  2. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[00:41]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Nú þegar langt er liðið á 1. umr. þess þingmáls sem hér liggur frammi, þ.e. hið fyrra af tveimur nýjum málum ríkisstjórnarinnar um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, er mjög áberandi hve mjög stjórnarliðar, ekki síst hæstv. sjávarútvegsráðherra, hafa skotið sér undan því að veita svör við spurningum sem haldið hefur verið á lofti og snúa að megintilgangi eða meginréttlætingu fyrir þeim breytingum sem lagðar eru til.

Spurt hefur verið um t.d. hvaða réttlæting sé til staðar til að gera þá breytingu að gengið sé á afla hlutdeildarkerfis til að auka við hina svonefndu potta þegar afleiðingin verði sú ein að heimildir færist á landsbyggðinni frá einum stað til annars. Það skortir á að það sé útskýrt. Eins og ég vék að í fyrri ræðu minni kann vel að vera að fyrir því séu einhver gild rök eða einhver sjónarmið sem ráðherrann hefur ætlað sér að tefla fram með skýrum hætti í umræðunni. Hann hefur bara látið það ógert enn þá.

Það er einungis talað um að það sé mikilvægt að styrkja byggðirnar, það sé mikilvægt að hafa einhver slík úrræði til að bregðast við erfiðum aðstæðum í einstökum sjávarþorpum þar sem miklar breytingar hafa átt sér stað eða atvinnuleysi ríkir. Allt er það mjög skiljanlegt en það er heldur ekki nýtt. Lög um stjórn fiskveiða eins og þau eru í dag geyma ýmis slík úrræði til að bregðast við slíkum aðstæðum. En það er hugmynd ráðherrans og ríkisstjórnarinnar að ganga enn lengra. Það er augljóst að það verður ekki gengið lengra í þá átt án þess að taka heimildir frá einhverjum öðrum til þess að mæta því markmiði.

Þeir sem hafa tjáð sig um frumvarpið fram til þessa, þó að það hafi ekki verið með formlegum hætti hingað til þingsins þar sem málið er ekki enn komið til þingnefndar, hafa margir bent á að það mundi kalla á að bátum yrði lagt, að fólki yrði sagt upp störfum, bæði sjómönnum og jafnvel fiskverkafólki, að mjög mundi draga úr arðsemi og þar af leiðandi skattgreiðslum til viðkomandi sveitarfélaga þar sem útgerðin er staðsett. Af heildarsamhengi málsins er augljóst að þeir sem leggja það fram reyna ekki einu sinni að halda því til streitu að arðsemi í útgerð verði jafnmikil, að útgerðarfyrirtækin muni hafa jafnmikinn afrakstur af starfssemi sinni í heild eftir að frumvarpið verður að lögum, verði það niðurstaðan.

Ég sakna þess mjög að þeim sjónarmiðum sé ekki haldið á lofti þannig að við getum tekist á um það, að við getum tekist á um prinsippið: Er réttlætanlegt að fórna arðsemi heildarinnar til þess að ná einhverjum sértækum markmiðum eins og birtast í þessu frumvarpi? Mér hefur þótt skorta mjög á að frumvarpið sjálft geymi þá réttlætingu og að þeir sem hafa mælt fyrir því reyni að fylgja henni eftir.

Síðan eru á þessu máli fjölmargir aðrir ágallar eins og t.d. sá að fyrirséð er að þær strandveiðar sem verið er að auka mjög við muni draga til sín sífellt fleiri báta, sífellt fleiri sjómenn, sem muni eftir því sem bátunum fjölgar og sjómönnunum skila minna af sér fyrir hvern og einn. Við höfum séð svo oft áður í fiskveiðisögu okkar hvernig það fer. Það fer á endanum þannig að enginn hefur neitt upp úr því sem hann reynir að gera (Forseti hringir.) og þá verður kallað eftir enn einni kerfisbreytingunni. Það er gömul saga sem mun (Forseti hringir.) endurtaka sig hér.