139. löggjafarþing — 139. fundur,  2. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[00:49]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg laukrétt hjá hv. þingmanni að frumvörpin koma eins og skrattinn úr sauðarleggnum eftir allt það samráð sem átti sér stað á síðasta ári. Nú kann að vera svo að stefna þingflokkanna á Alþingi sé um margt ósamrýmanleg en það hefur þó gilt í seinni tíð, og átti kannski sérstaklega við þegar síðast voru sett heildarlög um stjórn fiskveiða, að allir flokkar á Alþingi voru sammála um ákveðin meginmarkmið, sem var að ná til langs tíma hámarksafrakstri af fiskveiðum við strendur landsins. Það er það meginsjónarmið sem ég tel að þurfi ávallt að liggja til grundvallar. Ég tel að verið sé að fórna því í þeim málum sem við ræðum í dag og mér finnst að það skorti mjög á að fyrir því séu færð nægilega góðar skýringar.

Hefði verið hægt að ná betri sátt um þessi mál og vinna þau í betra samráði? Svo sannarlega. Ég tel reyndar að skýrsla sáttanefndarinnar í fyrra sýni að kominn var flötur, það var kominn grundvöllur til að gera talsvert miklar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu í góðri sátt, bæði milli þingflokka og við velflesta hagsmunaaðila, því sem næst alla hagsmunaaðila. Til dæmis tel ég að mögulegt hefði verið að gera þá breytingu að aflahlutdeildarkerfið byggði ekki á varanlegri hlutdeild heldur tímabundinni. Það þarf auðvitað að uppfylla ákveðin skilyrði til að gera þá breytingu, t.d. þá að samningar séu til langs tíma sem séu endurnýjanlegir með hæfilegum fyrirvara. Veiðigjaldið er að mínu áliti líka eitthvað sem má taka til skoðunar sem og þessir (Forseti hringir.) pottar og skipting þeirra, en breytingarnar sem við erum með hér eru óravegu (Forseti hringir.) frá samkomulaginu frá því í fyrra.