139. löggjafarþing — 139. fundur,  2. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[01:08]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að spyrja hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson hvort hann geti skýrt fyrir mér nokkuð sem ég er búinn að velta mikið fyrir mér frá því að þessi umræða hófst hér fyrir nærfellt þremur sólarhringum, þá staðreynd að hér er um að ræða stjórnarfrumvörp sem samþykkt eru í ríkisstjórn, hafa verið samþykkt í þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna, eru afrakstur af margra mánaða vinnu, sennilega níu mánaða vinnu innan ríkisstjórnarflokkanna, en svo ber við þegar málin koma til umræðu í þinginu að þeir þingmenn þessara sömu stjórnarflokka sem taka til máls hafa flestir veigamiklar athugasemdir við grundvallaratriði í þessum frumvörpum. Við höfum hlýtt á athugasemdir fjöldamargra þingmanna Samfylkingarinnar við það frumvarp sem nú er á dagskrá. Við vitum líka um efasemdir innan stjórnarflokkanna um hið síðara mál og stærra sem svo er kallað.

Getur hv. þingmaður með einhverju móti áttað sig á því hvað ríkisstjórnin er að fara með flutningi þessara mála þegar málin eru í slíku uppnámi innan þeirra eigin raða að þrátt fyrir margra mánaða samráð milli þingflokka stjórnarflokkanna sé staðan eins og hún er? Frumvarp liggur fyrir, frumvarp er lagt fram. Þeir sem maður hefði haldið að væru búnir að eiga aðild að einhverri málamiðlun um frágang málsins og framlagningu þess koma hér upp í röðum og telja upp í löngu máli þau fjöldamörgu atriði sem þeir telja nauðsynlegt (Forseti hringir.) að breyta svo þeir geti fallist á að samþykkja það.