139. löggjafarþing — 139. fundur,  2. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[01:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir nokkuð góða ræðu.

Loksins kom fram til hvers frumvarpið var flutt. Það er til að auka hlut strandveiða og styrkja sjávarbyggðir, þá veit ég það. Af hverju var ekki getið um það í greinargerð sem vantar við frumvarpið?

Hæstv. ráðherra sagði: Fleiri geta veitt og fénýtt sér afla. Það þýðir að það á að auka mannafla í veiðunum sem þýðir, vegna þess að við veiðum hvorki né seljum fleiri fiska, að við þurfum að lækka launin. Hér er sem sagt stefnt að því að lækka launin í sjávarútvegi. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort það sé virkilega stefnan að minnka hagsæld á Íslandi vegna þess að sjávarútvegurinn er svo stór og jafnvel að skerða og minnka velferðarkerfið sem byggir á hagkvæmum atvinnuvegum.

Síðan er þetta sérstaka álit fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins í frumvarpi sem hæstv. ráðherra flytur sjálfur. Þetta er hans greinargerð, hann hlýtur að hafa lesið frumvarpið áður en hann lagði það inn. Það getur ekki verið að hann sé á móti þessari greinargerð frá fjármálaráðuneytinu. Hafi hann samþykkt það fyrst í ríkisstjórn hlýtur hann að hafa gert athugasemd við þetta við hæstv. fjármálaráðherra. Hafi hann samþykkt það í þingflokki sínum hlýtur hann líka að hafa gert athugasemd. Þetta er alveg með ólíkindum.

Svo segir hæstv. ráðherra að þetta sé pólitísk ákvörðun, frú forseti. Ég hef heyrt það áður, sem sagt að pólitísk ákvörðun geti rústað stjórnarskrána. Menn segja að ákveðin meðhöndlun fjár sem mismunar sveitarfélögum sé pólitísk ákvörðun (Forseti hringir.) og ef fjármálaráðuneytið segir að það brjóti lög er það þvert á stjórnarskrána.