139. löggjafarþing — 139. fundur,  2. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[01:38]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður ætti að vera reyndur í málflutningi á Alþingi. Þetta frumvarp er breyting á lögum um stjórn fiskveiða en ekki ný lög sem við höfum hér verið að ræða. Þetta er breyting á lögum þar sem upphafsgreinin er þannig:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Frumvarpið sem við ræðum hér er bara breyting á lögum sem eru með skilgreint markmið og ég var að vitna í þannig að ég bendi hv. þingmanni á það.

Varðandi hitt er vinnan hjá skrifstofu fjármálaráðuneytisins sem gefur þessa kostnaðarumsögn í rauninni sjálfstæð og umsögnin send svo beint til þingsins. Að sjálfsögðu fylgir þetta með frumvarpinu. Það er bara rökstutt mat ráðherrans að það sem þarna er ýjað að sé ekki rétt enda er í þessari umsögn fjármálaráðuneytisins ekkert fullyrt, ekkert rökstutt, það er enginn rökstuðningur eða álit á því enda ekki kannski beint hlutverk þessarar skrifstofu fjármálaráðuneytisins að gera það. Þetta álit er hvergi rökstutt með neinum gögnum heldur er þetta látið vera, eins og ég sagði áðan, (Forseti hringir.) eitthvað hálfmeint.

Ég fullvissa hv. þingmann um að hann getur treyst ráðherranum í þessum efnum.