139. löggjafarþing — 139. fundur,  2. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[01:49]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég minni bara á tilgang strandveiðanna sem er að opna fyrir möguleika á að fara á sjó og veiða fisk og mega fénýta sér hann án þess að hafa keypt aflaheimildir eins og verið hefur í núverandi kerfi. Þetta er ekki hugsað sem eitthvert stórútgerðarform, fjarri því. Þetta er fyrst og fremst hugsað til þess að mæta þeim kröfum sem ég nefndi og ég trúi ekki að hv. þingmaður vilji mæla með því að strandveiðarnar verði eitthvert stórútgerðarform.

Að mínu mati er þetta fyrst og fremst til þess að mæta ákveðnum kröfum á möguleikum einstaklinga til þess að sækja sjó með þessum hætti og lagaumgjörðin þarf að tryggja það. (Forseti hringir.) Ég treysti hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd til þess að fara yfir þau atriði (Forseti hringir.) sem gæti þurft að skoða betur til að ná þeim markmiðum sem sett eru.